Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Miklar drunur á Suðurlandi í gærkvöld

16.11.2013 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúar á Suður- og Suðausturlandi urðu varir við miklar drunur í gærkvöld. Fjölmargar tilkynningar bárust Veðurstofu Íslands vegna þessa.

Jarðskjálftamælingar sýndu hins vegar engin merki um óróleika. Innhljóðsmælar í Gunnarsholti sýndu þó fjölda líkra atburða í gær og nótt með upptök í átt að hafi og staðfestu þar með drunurnar. Fram kemur á vef Veðurstofunnar að athuganir bendi til að drunurnar hafi líklega verið af völdum brims, en brim er einmitt eitt af þeim náttúrufyrirbærum sem getur valdið lágtíðnihljóðum. Hægur vindur í gærkvöldi gerði það að verkum að menn og dýr urðu vör við lætin í hafinu sem berast vel við slík skilyrði jafnvel tugi kílómetra frá upptökum við ströndina.