Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikilvægt að vera ekki bara þekkt sem kona einhvers

Mynd: Rúv / Kastljós
„Ég er ekki endilega eins og taska sem hann getur bara dregið með sér þegar hann er að fara eitthvert til að sýna,“ segir Eliza Jean Reid forsetafrú. Hún vill leggja sitt af mörkum til að endurskoða viðhorf til maka þjóðarleiðtoga. Oftar en ekki séu það konur og litið á þær sem fylgihluti eiginmannanna. Því þurfi að breyta. Það sé mikilvægt að vera ekki bara þekkt sem kona einhvers.

Nauðsynlegt sé að hugsa um hvernig hægt sé að koma þessu hlutverki maka þjóðarleiðtoga í nútímalegra horf. Það sé gamaldags hugsunarháttur að líta á kvenkyns maka sem skraut manna þeirra meðan þeir vinni. Þær eru sínar eigin manneskjur, segir Eliza í Kastljósi kvöldsins. 

Hún vilji þó undirstrika hversu þakklát hún sé og hvað það séu mikil forréttindi og heiður að fá að sinna hlutverkinu. Þá finnist henni mikilvægt að hún noti rödd sína sem kvenkyns maki þjóðarleiðtoga. Árið 2019 eigi raddir kvenna að heyrast meira en minna. 

Samfélagið þurfi að sýna þolinmæði

„Fólk er stundum hissa að ég tali íslensku, en ég vona að það breytist,“ segir Eliza, sem er fædd í Ottawa í Kanada og hefur ensku að móðurmáli. Hún  segist reyna að æfa sig eins oft og hún geti í íslenskunni og passi sig á að vera ekki feimin að tala og tjá sig þótt hún geri stundum mistök. Mikilvægast sé að fólk skilji það sem hún segi. 

Í tilefni af degi íslenskrar tungu birti Eliza á Facebook fyrsta bréfið sem hún skrifaði Guðna Th. Jóhannessyni, nú forseta Íslands, á íslensku. Þá var hún 23 ára gömul og vildi heilla hann með málsnilld sinni. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Aðspurð, segir hún það geta verið erfitt verkefni að læra íslensku. Til að mynda tali Íslendingar yfirleitt góða ensku og skipti jafnvel fljótt yfir í ensku þegar talað sé við fólk sem sé að reyna að læra tungumálið.

Innflytjendur eigi að reyna að læra tungumálið, enda sé erfitt að komast vel inn í samfélagið án þess. Hins vegar sé mikilvægt að samfélagið sýni þeim sem eru að reyna að læra íslensku þolinmæði og reyni að skilja hvað fólk segi, þótt það tali með hreim eða hafi ekki allan orðaforðann, og skipti ekki strax yfir í ensku eða annað tungumál.

Segir auðvelt að monta sig af Íslandi

Eliza byrjaði nýverið sem verktaki hjá Íslandsstofu. Undanfarin ár hefur hún unnið ötullega að því að koma íslenskum rithöfundum á framfæri og kynnt íslenskar bókmenntir erlendis. Hjá Íslandsstofu verður hún talsmaður Íslands á breiðari vettvangi og kynnir einnig íslenska matarmenningu og stefnur hér á landi, svo sem jafnréttisstefnu og sjálfbærni, og íslenska nýsköpun á erlendum vettvangi.

„Glöggt er gests augað,“ segir Eliza, það auðveldi henni að sýna og tala um það sem Íslendingar séu stoltir af hér á landi. „Ég er bara svo stolt af því að vera Íslendingur að það er ekkert mál fyrir mig að monta mig af Íslandi þegar ég er erlendis.“