Nauðsynlegt sé að hugsa um hvernig hægt sé að koma þessu hlutverki maka þjóðarleiðtoga í nútímalegra horf. Það sé gamaldags hugsunarháttur að líta á kvenkyns maka sem skraut manna þeirra meðan þeir vinni. Þær eru sínar eigin manneskjur, segir Eliza í Kastljósi kvöldsins.
Hún vilji þó undirstrika hversu þakklát hún sé og hvað það séu mikil forréttindi og heiður að fá að sinna hlutverkinu. Þá finnist henni mikilvægt að hún noti rödd sína sem kvenkyns maki þjóðarleiðtoga. Árið 2019 eigi raddir kvenna að heyrast meira en minna.
Samfélagið þurfi að sýna þolinmæði
„Fólk er stundum hissa að ég tali íslensku, en ég vona að það breytist,“ segir Eliza, sem er fædd í Ottawa í Kanada og hefur ensku að móðurmáli. Hún segist reyna að æfa sig eins oft og hún geti í íslenskunni og passi sig á að vera ekki feimin að tala og tjá sig þótt hún geri stundum mistök. Mikilvægast sé að fólk skilji það sem hún segi.
Í tilefni af degi íslenskrar tungu birti Eliza á Facebook fyrsta bréfið sem hún skrifaði Guðna Th. Jóhannessyni, nú forseta Íslands, á íslensku. Þá var hún 23 ára gömul og vildi heilla hann með málsnilld sinni.