Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mikilvægt að styrkja verkfallssjóðinn

24.10.2016 - 08:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins, segir að búast megi við því að það verði róstusamara á vinnumarkaði á næstu misserum. Þess vegna hafi sambandinu þótt mikilvægt að styrkja verkfallssjóðinn.

Tillaga miðstjórnar ASÍ þess efnis liggur fyrir þingi sambandsins sem verður haldið á miðvikudag. Lagt er til að í hann renni liðlega 143 milljónir króna af óráðstöfuðu eigin fé sambandsins. Fyrir í sjóðnum eru 212 milljónir þannig að verði tillagan samþykkt stækkar sjóðurinn um  67,5 prósent. 

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að í ljósi þeirrar miklu óvissu sem sé á stöðu kjaramála á næstu misserum sé lagt til að bætt verði í sjóðinn. Aðildarfélög ASÍ eru með verkfallssjóði en vinnudeilusjóði ASÍ er ætlað að vera þeim bakhjarl. 

Gylfi segir að ASÍ vilji búa sig undir að svo geti farið að það geti soðið upp úr á vinnumarkaði.
„Við þurfum í það minnsta að undirbúa okkur undir að það geti farið svo. Það voru mikil átök hér á vinnumarkaði árið 2014 og 2015. Svo tókst að koma þessu í farveg, SALEK farveginn. Það er uppstytta í því allavega í bili. Ef það finnst ekki lína í því þá held ég að það blasir við að við förum aftur inn í þá ólgu sem var. Það er enn þá ósætti sem getur þá brotist út í því að það verði meiri ágreiningur við gerð kjarasamninga.“
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV