Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mikilvægt að nota íslensku í stafrænum heimi

Mikilvægt að nota íslensku í stafrænum heimi

02.01.2017 - 23:30

Höfundar

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, segir erfitt að meta hvort íslensk tunga sé í hættu. Hyggja þurfi að stöðu íslenskrar tungu í stafrænum heimi. Það skipti máli að íslenska sé notuð alls staðar innan tölvutækninnar.

Tilkoma snjallsíma hafi breytt miklu því margir séu sítengdir við enskan menningarheim auk þess sem margir spili gagnvirka tölvuleiki á ensku. 

Rætt var við Eirík í Kastljósi í kvöld. 

Eiríkur segir ekkert tæknilega því til fyrirstöðu að nota íslensku til dæmis í samskiptum við gervigreind og allskonar tölvustýrð tæki. Til þess þurfi tíma og peninga. Stýrihópur skipaður af menntamálaráðherra sé að störfum sem eigi að gera áætlun um uppbyggingu íslenskrar máltækni.
Tölvum sé meira og minna stjórnað með tungumálinu og þá sé spurning á hvaða tungumál það verði hér á landi. Ekki sé hægt að ábyrgjast að fólk verði tilbúið til að nota íslensku í slíkum samskiptum og það líkurnar á því minnki eftir því sem það dragist að gera það mögulegt. „Ef við getum gert börnum og unglingum það kleift að nota íslensku í samskiptum við tölvurnar þá held ég að íslenskan geti alveg þrifist áfram og lifað góðu lífi.“

Ný viðamikil rannsókn á íslenskukunnáttu að hefjast

Eiríkur segir of lítið vitað um málþroska og málskilning íslenskra ungmenna nú þegar margir úr þeirra hópi verja æ stærri hluta dagsins í ensku málumhverfi hér á landi í stað íslensku. „Maður heyrir alltaf allskonar sögur um krakka sem eru að leika sér á ensku en það hafa ekki verið gerðar neinar stórar skipulagðar rannsóknir. Hins vegar er slík rannsókn að fara af stað núna. Við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor fengum stóran styurk úr rannsóknarsjóði  á síðasta ári til að rannsaka stöðu íslenskunnar á þessu sviði. Innan tveggja, þriggja ára ættum við að vita miklu meira um þetta.“

Rannsóknin verði viðamikil taki til allra aldurshópa. Sérstök áhersla verði þó lögð á yngri aldurshópa með því að kanna kunnáttu í ensku og íslensku og viðhorf til tungumálsins.