Mikilvægt að hlúa að börnum á meðan faraldurinn geysar

17.03.2020 - 22:42
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Mikilvægt er að huga vel að líðan barna og ungmenna á meðan COVID-19 faraldurinn geysar. Þetta segir Steingerður Sigurbjörnsdóttir barna- og unglingageðlæknir. Hún segir að fullorðna fólkið þurfi að fara fram með góðu fordæmi og sinna eigin heilsu líka.

„Það þarf að huga að því að börn fái hollan mat, þau sofi nógu mikið og þau hreyfi sig,“ segir Steingerður. Sama gildi um foreldra og forráðamenn. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Rútínan sem fylgir því að vera í skóla, þó að það sé nú með skertu sniði, sé mikilvæg fyrir börnin, og einnig samskipti við jafnaldra. Foreldrar eigi að upplýsa börnin, en takmarka hrakfallaspár. „Það þarf að velja hvaða upplýsingar eru gefnar börnum, bæði út frá þeirra þroskastigi og aldri, og það þarf kannski ekki að koma með öll smáatriði, sem geta valdið miklum óróleika,“ segir Steingerður. „En ef að það er spurt þá þarf að vera hreinskilni og segja hlutina eins og þeir eru, á sama tíma og það er bent á jákvæðu hlutina og það sem verið er að gera til að tryggja öryggi.“

Steingerður bendir á upplýsingarit Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, UNICEF og Rauða krossins, þar sem hægt er að nálgast fræðslu og upplýsingar um faraldurinn fyrir kennara, nemendur og forráðamenn barna.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi