Mikilvægt að ganga frá trampolínum

Mynd með færslu
 Mynd:

Mikilvægt að ganga frá trampolínum

25.06.2013 - 21:42
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu verður með viðbúnað vegna hvassviðris sem spáð er á morgun. Við því er búist að lausamunir takist á loft ef spár rætast.

Slökkviliðið vill minna borgarbúa á að ganga vel frá lausamunum, festa trampolín og garðhúsgögn til að koma í veg fyrir eignatjón. 

Að sögn vakthafandi slökkviliðsmanns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er meira um lausamuni utandyra að sumri til og því brýnni ástæða til að gæta að þeim á þessum árstíma en öðrum. Mikið hvassviðri er sjaldgæft á sumarmánuðunum og fólk gjarnan verr undir það búið en að vetri til.  

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu verður 13-20 m/s sunnan- og vestanlands á morgun og líkast til annað eins á fimmtudag. Hægara verður norðaustantil. Með þessu verður rigning á köflum svo borgarbúar geta skipt sólhlífum út fyrir regnhlífar um sinn.