Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikilvægt að börnin geti verið áhyggjulaus

13.02.2019 - 20:35
Mynd:  / 
Mikilvægt er að börn hælisleitenda á Íslandi geti verið áhyggjulaus börn, segir Ásthildur Linnet, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Hún ræddi áform Reykjavíkurborgar um að veita öllum börnum sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi menntun í Vogaskóla í Kastljósi í kvöld.

„Rauði krossinn hefur lagt áherslu á það að öll börn fái að aðlagast samfélaginu sem tekur við þeim. Fyrir börn er mjög mikilvægt að geta starfað í því hverfi sem þau búa og að þau hafi tækifæri til að kynnast skólasamfélagi í því hverfi, geti tekið þátt með jafnöldrum sínum, að þau geti um stund gleymt fortíðinni og þeirri stöðu sem þau hafa verið í,“ sagði Ásthildur í Kastljósi.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að það sé gríðarlega mikilvægt að börnum hælisleitenda sé veitt eins góð móttaka og kostur er. „Börnunum er enginn greiði gerður að byrja bara beint í almennum grunnskóla, börn sem hafa kannski enga reynslu af skólastarfi og eru að bera þungar tilfinningalegar byrgðar,“ segir hann.

„Auðvitað skil ég að menn hafi áhyggjur af þessu, að þarna sé verið að búa til aðgreiningu. En við erum að veita, með sérhæfðum kennurum, góðan stuðning með fyrstu skrefunum. Þegar við lítum á menntun fyrir alla, þá verðum við að hafa í huga að við erum að reka sérskóla og sérdeildir.“

Spurður hvers vegna þessa sérstöku þjónustu er ekki hægt að veita í öllum grunnskólum svara Helgi að það sé oft ekki til fagþekking til þess að taka á móti börnunum. Þegar hann var spurður hvort það þurfi ekki að lega það segir hann að það geti tekið langan tíma.

„Vandinn er núna og hann er mikill og brýnn. Við erum búin að vinna með Samtökum íslenskra sveitarfélaga og fagaðilum eins og Rauða krossinum að móta stefnu. Það skiptir okkur miklu máli að veita þeim [börnunum] eins góða þjónustu og kostur er.“

Hefur áhyggjur af lengri vegalengdum

Ásthildur segir að það þurfi ekki að vera slæmt að þörfum barna sé sinnt sérstaklega á einhverjum einum stað. „Það sem veldur okkur áhyggjum við fyrstu sýn er að börnin búa nokkuð dreift um borgina og það getur verið mjög langt fyrir þau að fara í skóla. Við höfum dæmi um að börn hafi þurft að sækja skóla um langan veg og það hefur reynst þeim mjög þungbært,“ segir hún.

„Það er rekið sambærilegt úrræði í Hafnarfirði en það er ólíkt þar að þar búa börnin öll í nágrenni við skólann, flest öll,“ segir Ásthildur. „Þau sem búa aðeins fjær, til dæmis í búsetuúrræði útlendingastofnunar, þau kvarta yfir því að það er erfitt að fara og það veldur óöryggi. Það fyrsta sem börn í leit að alþjóðlegri vernd er öryggi og festa.“

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV