Mikilvægt að bólusetja börn á réttum aldri

27.07.2018 - 14:20
Skjáskot
 Mynd: RÚV
Mjög mikilvægt er að börn séu bólusett á réttum aldri, að sögn framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sérstaklega er mikilvægt að átján mánaða börn séu bólusett gegn mislingum þar sem mislingatilvikum hafi fjölgað í Evrópu.

Þátttaka í almennum bólusetningum hér á landi var óviðunandi á síðasta ári, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sóttvarnalæknis. Þar segir að ef þátttaka minnki enn frekar megi búast við því að hér á landi fari að að koma upp sjúkdómar sem ekki hafi sést í áraraðir. 

Þórunn Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að ungbarnaskoðanir og bólusetningar falli helst niður hjá tólf mánaða, átján mánaða og fjögurra ára börnum. „Ég held að ástæðan sé sú að það líður svolítið langt á milli skoðana hjá þessum aldurshópum. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að hringja í og reyna ná til þeirra foreldra sem eru með börn á þessum aldri og hafa ekki komið í bólusetningar,“ segir Þórunn.

Miklu skiptir að börn séu bólusett á réttum tíma. Þórunn segir að það sé sérstaklega mikilvægt að komið sé með átján mánaða gömul börn í bólusetningu gegn mislingum þar sem mislingatilvikum hafi fjölgað í Evrópu á undanförnum árum. Þórunn telur að hluti foreldra sé ekki nægilega meðvitaður um nauðsyn þess að láta bólusetja börn sín. Þeir sjúkdómar sem verið sé að bólusetja við séu ekki að ganga núna, fyrir utan mislinga. „Þessir sjúkdómar eru ekki að ganga núna því við höfum verið að fyrirbyggja þá og það verður ekki gert öðruvísi en með bólusetningum.“

Þegar börn byrja í grunnskóla skoðar skólahjúkrunarfræðingur þau og fer yfir bólusetningar, því ættu engin börn að vera óbólusett þar, að sögn Þórunnar.

Séu foreldrar í vafa um það hvort barn þeirra sé bólusett eða ekki geta þeir kannað það á vefnum heilsuvera.is. Þar getur fólk skráð sig inn og fengið upplýsingar um bólusetningar sínar og barna sinna. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi