Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mikilvægt að alþingismenn hlusti á börn

27.10.2017 - 22:05
Það er mikilvægt að alþingismenn hlusti á börn. Þetta segir nemandi í Fossvogsskóla. Þar og víðar voru haldnar krakkakosningar í dag. Það var mikil eftirvænting hjá nemendum í Fossvogsskóla og á Höfðabergi í Lágafellsskóla í dag þegar þau kusu í fyrsta sinn í sérstökum krakkakosningum. Úrslitin verða tilkynnt í kosningasjónvarpi RÚV á morgun.

Krakkarnir hafa undanfarna daga lært um lýðræði, mikilvægi kosninga og hafa kynnt sér stefnumál flokkanna fyrir komandi alþingiskosningar, meðal annars með því að horfa á kynningarmyndbönd flokkanna á KrakkaRÚV. Gunnar Andri Arnbjörnsson, nemandi við Fossvogsskóla, segir að það hafi gengið vel að ákveða hvaða flokki hann myndi greiða atkvæði. „Það gekk nú ágætlega. Fyrst voru sýnd nokkur videó þar sem flokkarnir kynntu sig þannig að það gekk ágætlega að velja.“

Kristján Örn Sigurðsson segir mikilvægt að alþingismenn taki tillit til barna. „Mér finnst mikilvægt að þeir hlusti á börn þegar þau eru að tala og fari eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Mynd með færslu
Nemendur að kjósa í Fossvogsskóla í dag. Þau notuðu bókasafnskortin sín sem persónuskilríki. Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Það er mikilvægt að alþingismenn beiti sér fyrir því að öll börn geti stundað tómstundir. „Að þau geti æft það sem þau vilja og að það sé til nóg af blýöntum og bókum í skólum. Svo þarf líka að leggja meiri áherslu á listnám, dans og þannig,“ segir Valgerður Rún Samúelsdóttir.

Ísold Sturludóttir Hamar hefur kynnt sér stefnumál flokkana vel. Hún kveðst ekki alltaf skilja það sem fólk í stjórnmálum segir í fjölmiðlum en að hún skilji það sífellt betur. „Ég er dugleg að spyrja mömmu mína og pabba hvað allt þýðir. Mér finnst mjög gaman að fylgjast með því af því að ég hef sterkar skoðanir á þessum málum.“ Ísold segir aldrei að vita nema hún bjóði sig fram til Alþingis í framtíðinni.  

Fréttastofa kíkti einnig í heimsókn í dag til nemenda í 2. bekk á Höfðabergi í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Þau voru einnig að kjósa í fyrsta sinn í krakkakosningum. Hægt er að sjá frá heimsókninni í myndbandinu í spilaranum hér fyrir ofan. 

Mynd með færslu
Nemendur í 2. bekk á Höfðabergi í Lágafellskóla gengu til krakkakosninga í dag. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir