Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikilvægast að Wow fljúgi áfram til landsins

02.12.2018 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Eins og staðan er skiptir mestu máli að WOW verði áfram í öflugum rekstri. Þetta segir samgönguráðherra. Síðar komi í ljós hvort WOW verði áfram með heimahöfn hér eða íslenska áhöfn. Eftirlit með félaginu hafi verið náið. 

 

Sigurður Ingi segir að Samgöngustofa og stýrihópur stjórnvalda um kerfislega mikilvæg fyrirtæki fylgist grannt með félaginu. Hann hafi þó sjálfur ekki séð árshlutauppgjör WOW, sem fjallað var um í gær. 

„Það er semsagt Samgöngustofa sem hefur það hlutverk að fylgjast með flugrekstrarhæfi og gefa út hið opinbera leyfi. Það eftirlit lýtur meðal annars að fjárhag fyrirtækja.“

Þetta eftirlit Samgöngustofu hafi verið mjög nákvæmt síðustu vikur og mánuði. 

Gæti það gerst að Wow verði svipt flugrekstrarleyfi vegna bágrar fjárhagstöðu? 

„Við erum allan tímann búin að fylgjast með þessu, við höfum ávallt vonað það besta, það hafa ýmsar leiðir komið upp, við höfum vonað að þær endi vel en höfum reynt að undirbúa okkur undir það versta sem augljóslega er ef fyrirtækið myndi hætta að fljúga til landsins.“

Hann vonar að af samningum Wow og Indigo partners verði.  

„Það mun þá allavega greiða úr þeim vanda sem félagið hefur staðið frammi fyrir.“

Væri áhætta í því fólgin ef félagið flytti höfuðstöðvar úr landi, segði upp íslensku starfsfólki og réði erlendar áhafnir? 

„Ég verð að segja alveg eins og er að eins og staðan er núna skiptir öllu máli að félagið sé áfram í öflugum rekstri og ég held það sé það sem allir eru að einblína á núna. Hvað síðar gerist í framtíðinni í þessu mikla samkeppnisumhverfi sem flugið er get ég einfaldlega ekki tjáð mig um.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV