Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikilvægast að halda sig við málefnin

31.10.2017 - 08:07
Mynd með færslu
Lilja Alfreðsdóttir leiðir lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Mynd: Skjáskot - RÚV
Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins segir að stjórnarmyndun snúist um málefnin. Við myndun síðustu ríkisstjórnar hafi til dæmis skapast vantraust í garð Viðreisnar og Bjartrar framtíðar vegna stefnumála þeirra og stjórnarsáttmálans.

Lilja Dögg var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og sagði að á þessum tímapunkti væri mjög óskynsamlegt að útiloka nokkurn stjórnmálaflokk í stjórnarmyndunarviðræðunum: „Þetta snýst samt alltaf um málefnin, að þeir sem ná saman um málefnin munu ráða för. Og ég held við höfum séð það líka við myndum síðustu ríkisstjórnar hvað það er brýnt að halda sig við þau kosningamál til dæmis eins og það sem Viðreisn lendir í og Björt framtíð að ef þú einhvern veginn ferð fram með eitthvað kosningamál og það sem þú stendur fyrir og þú lætur svo kannski, þú fylgir ekki, endurspeglar stjórnarsáttmálinn það ekki nægilega vel þá held ég að það skapist alltaf, að það verði alltaf eitthvað ákveðið svona vantraust gagnvart þeirri stefnu sem viðkomandi flokkur hefur þannig að gerð stjórnarsáttmála og hverjir ná svo saman muni líka ráða miklu um framvindu og líf ríkisstjórnarinnar.“