Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikilvæg skref hjá Seðlabankanum

19.03.2020 - 15:15
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að seðlabankinn hafi stigið mjög mikilvæg skref á einni viku. Stýrivextir hafi verið lækkaðir og sömuleiðis bindiskylda bankanna. Einnig hafi verið ákveðið að afnema sveiflujöfnunarhvatann. Hún segir að staðan sé grafalvarleg.

„Þessar aðgerðir allar eru til þess fallnar til að styðja við heimili og fyrirtæki í landinu. Og síðast en ekki síst með tilkynningu um sveiflujöfnunarhvatann er verið að auka útlánagetu bankanna. Þannig að þessar aðgerðir eru mjög mikilvægar og til þess fallnar að lækka fjármögnunarkostnað heimila og fyrirtækja. Það á að óbreyttu að vera ódýrarar að taka lán eða endurfjármagna eldri lán,“ segir Ásdís. 

Hún segir að skilaboð seðlabankastjóra hafi verið skýr í gær. Bankinn sé rétt að byrja. Því megi búast við að fleiri aðgerðir séu framundan.

 
„Þetta eru að mínu mati mjög mikilvæg skilaboð og ljóst að seðlabankinn er að fylgjast með stöðunni dag frá degi og er að undirbúa frekari aðgerðir.“ 

Staðan er grafalvarleg

Ásdís bendir á Seðlabankinn hafi svigrúm til að lækka stýrivexti enn frekar. Aðrir seðlabankar hafi verið að stíga fram með annars konar aðgerðir. Meðal annars að beita sér á mörkuðum. Það kom fram á fundi seðlabankans í gær að erfitt sé að meta stöðuna nákvæmlega vegna þess að hún breytist dag frá degi.

„Ég held að allir sjái og finni að staðan er grafalvarleg. Atvinnulífið er að finna fyrir verulegum samdrætti. Og eins og kom fram hjá seðlabankanum verður líklega samdráttur í ár. En það er næstum því ómögulegt að koma með einhverjar sviðsmyndir núna. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að þetta er tímabundið áfall,“ segir Ásdís.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV