Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikill munur milli landshluta í Pisa-rannsókn

04.12.2019 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nemendur í Reykjavík og nágrenni standa sig betur en nemendur í öðrum landshlutum á öllum sviðum nýjustu Pisa-rannsóknarinnar. Lesskilningur er á niðurleið í öllum landshlutum utan Reykjavíkur, að Austurlandi undanskildu. Þar stendur færni í lestri í stað frá síðustu könnun.  

Í Pisa-rannsókninni er metin færni 15 ára nemenda í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum. Í nýjustu rannsókninni, fyrir 2018, er sérstök áhersla lögð á lesskilning. Lesskilningur var síðast aðalsvið Pisa árið 2009 og niðurstöður nýjustu rannsóknarinnar benda til þess að síðan þá hafi lesskilningur dalað í öllum landshlutum.

Bestur lesskilningur hjá nemendum í Reykjavík

En það er talsverður munur á frammistöðu í lesskilningi eftir landshlutum í Pisa 2018 og þar standa nemendur í Reykjavík og nágrenni sig best. Nemendur í Reykjavík eru þeir einu sem bæta sig í lesskilningi frá 2015, en á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra, versnaði frammistaðan marktækt frá síðustu könnun.

Lesskilningur annarsstaðar á niðurleið

Minni breytingar eru í öðrum landshlutum, en lesskilningur alls staðar á niðurleið, að Austurlandi undanskildu, þar sem hann stendur í stað milli áranna 2015 og 2018.

Betri árangur í stærðfræði

Nemendur í Reykjavík og á Suðurlandi bæta sig áberandi mest í læsi á stærðfræði frá síðustu könnun Pisa. Þar er árangurinn einnig upp á við á Norðurlandi vestra, í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og á Austurlandi.

Færni í náttúruvísindum mest í borginni

Í læsi á náttúruvísindi bæta nemendur í Reykjavík og nágrenni sig einnig. Þá batnar árangur nemenda á Norðurlandi vestra og Suðurlandi einnig í náttúruvísindum, en sú kunnátta fer versnandi í öðrum landshlutum.