Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mikill áhugi á sumarbúðum fyrir börn í sorg

19.11.2018 - 09:17
Mynd:  / 
Heiðrún Jensdóttir, hefur perónulega reynslu af sorg og hvernig hún hefur áhrif á börn. Hún og Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðabæ, hafa haldið sumarbúðir fyrir börn sem hafa misst foreldri. Rætt var við Heiðrúnu í Mannlega þættinum. Hún segir að víða sé í boði stuðningur fyrir fullorðna sem misst hafa ástvin en ekkert er til fyrir börn hér á landi.

Ákveðin í því að láta þetta ekki buga okkur

„Það var nú þannig árið 2014, 1. mars, þá missti ég son minn 31 árs gamlan. Hann sem sé tók sitt líf og lét eftir sig dóttur, 10 ára þá. Þetta var náttúrlega gríðarlegt áfall fyrir alla. Og ég og minn maður vorum ákveðin í því að láta þetta ekki buga okkur. Við myndum fá alla þá hjálp sem í boði væri fyrir okkur. Og við fórum að leita og fundum til dæmis Nýja dögun og fleiri staði sem við fórum á til að hitta fólk sem hafði orðið fyrir því áfalli að missa barnið sitt. Við fundum strax að þetta gerði okkur gott, að geta samsamað okkur við annað fólk með sömu reynslu og upplifað sorgina með öðrum.“

Leitaði að stuðningshópi fyrir börn sem syrgja 

Heiðrún velti fyrir sér hvort það væri til stuðningshópur sem sonardóttir hennar gæti leitað til og grennslaðist fyrir um það á netinu. 

„Og fann heimasíður hjá samtökum erlendis sem vísuðu svo á myndbönd sem ég var að skoða. Ég sá að það var farið með börn í svona sumarbúðir eða út fyrir bæjarmörkin heila helgi og það var verið að vinna með sorgina hjá börnunum. Þau voru að hitta önnur börn sem höfðu misst foreldri sitt eða mjög náinn aðstandanda. Það var líka gleði þar, það var ekki bara verið að ræða sorgina.“   

Hér á landi var hins vegar ekkert í boði fyrir börn sem misst höfðu foreldri. 

Presturinn sem jarðaði son Heiðrúnar, séra Hans Guðberg Alfreðsson, hélt utanum fjölskylduna í heilt ár. En sonardóttir Heiðrúnar, sem alist hafði upp hjá þeim, flutti til móður sinnar og Heiðrún misst sjónar á því hvernig henni tókst að vinna úr sorginni. 

Við höfum sagt frá því á Heilsuvaktinni að brestir eru í löggjöf um vernd og rétt barna sem hafa missa foreldri og töluvert vantar upp á stuðning við þau í heilbrigðiskerfinu. Ennfremur að búið er að leggja fram frumvarp á Alþingi sem, ef verður samþykkt, bætir stöðu barna sem misst hafa foreldri verulega bæði í heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu. 
Andlát sonar Heiðrúnar bar óvænt að þannig að það reyndi ekki á heilbrigðiskerfið.    

Sumarbúðir fyrir börn sem syrgja 

„En hins vegar fengum við áfallahjálp frá bæjarfélaginu greidda, 10 tíma - en ekki hún. Þannig að það virðist vera lítið framboð fyrir börn.“

Sumarbúðirnar sem Heiðrún og Jóna Hrönn stóðu fyrir voru um páskana. Börnin sem tóku þátt voru á aldrinum 8-17 ára. Þau höfðu öll misst foreldri eða annan nákominn ættingja. Sjálfboðaliðar, sálfræðingar, prestar og listamenn voru á staðnum sem börnin gátu leitað til.

„Þau opna sig öll um sorgina. Ég var einmitt í hópnum fyrir yngri börnin síðast og þau voru alveg ótrúleg. Þau voru svo dugleg og þau opnuðu sig alveg um sorgina. Þarna eru þau að hitta krakka sem misst hafa, sem hafa sömu reynslu og þau. Þarna geta þau tekið niður grímuna því þarna eru allir á sama stigi og þarna má líka hlæja og það má gráta líka og það var líka grátið og þetta er einhvernvegin svona þetta er alveg ofboðslega fallegt, maður kemst við.“

„Við verðum að halda vel utan um börnin sem missa foreldri sitt, það er ekki hægt að láta þau hanga í lausu lofti.“

„Ég hef líka verið með fólki sem er að koma til okkar sem misst hafa sem börn og eru nú orðin fullorðin og eru nú að taka á því.“ 

Örninn og arnarvængir 

Heiðrún segir að stefnt sé að því að halda sumarbúðir einu sinni á ári. 
Verkefnið gengur undir nafninu Örninn og nú er unnið að gerð heimasíðu sem mun heita Arnarvængir. „Það kemur til af því þetta skaut í huga okkar af því örninn er svo stór og sterkur og flýgur hæstur allra á himninum og við þurfum að vera sterk og dugleg þegar við erum í sorginni til að geta unnið okkur út úr henni og heimasíðan hún mun heita Arnarvængir þegar hún kemur út.“

Hvernig getur fólk komist í samband við ykkur?

„Það hefur bara verið hringt í mig eða Jónu og við höfum tekið skráninguna.“ 

Þegar heimasíðan verður opnuð verður einnig hægt að skrá sig þar, kynna sér markmiðin og drög að dagskrá sumarbúðanna sem verða í apríl á næsta ári.

Nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp til laga sem ef verður samþykkt bætir stöðu barna sem misst hafa foreldri verulega, bæði í heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu. Frumvarpið sem mælt verður fyrir í næstu viku er til breytinga á lögum um réttindi sjúklinga, lögum um heilbrigðisstarfsmenn, barnalögum og lögum um leik-, grunn-, og framhaldsskóla.