Mikill áhugi á að kaupa Perluna í Djúpinu

13.06.2018 - 09:30
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Enn hafa engin tilboð borist í eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi, sem var auglýst til sölu í síðustu viku, áhuginn er þó mikill. Bóndinn í eyjunni segist vonast til að nýr eigandi verði áfram með ferðaþjónustu og að hann eigi ábyggilega eftir að sjá eftir sölunni.

Búin að vera í tæp 40 ár

Vigur er ein þriggja eyja í Ísafjarðardjúpi. Lengi vel var búskapur í eynni en undanfarin ár hefur ferðaþjónusta tekið við. Þá eru nýtt hlunnindi af æðarvarpi. Eyjan hefur verið kölluð Perlan í Djúpinu. „Við erum búin að vera hérna í tæp 40 ár og okkur fannst bara kominn tími til að breyta til og sjá meira af barnabörnunum og börnunum og gefa einhverjum öðrum tækifæri á þessum flotta stað,“ segir Salvar Baldursson, bóndi í Vigur.

Næsta kynslóð ekki reiðubúin að taka við eynni

Salvar og kona hans Hugrún eiga fjögur börn. Hvorki þau né frændsystkin þeirra voru reiðubúin að taka við eynni. „Ég held að ég gæti ekki haldið utan um alla þessa eyju ein. Það er heldur ekki í mínu áhugasviði, það sem ég vil gera. Þótt það sé frábært að vera hérna þá hefði ég ekki getað verið hér,“ segir Sigríður Salvarsdóttir, heimasætan í Vigur.

Mikill áhugi á eynni

Enn hafa engin tilboð borist en Davíð Ólafsson hjá fasteignasölunni Borg segir að áhuginn sé mikill. Hann eigi von á nokkrum tilboðum, lágmarkstilboð sé 300 milljónir. Salvar bindur vissar vonir við nýja eigendur: „Ég vil náttúrlega að hann sýni eyjunni sóma, þetta er náttúrlega mjög skemmtileg og falleg eyja og hún býður uppá ótal tækifæri og ég myndi helst vilji sjá rekstur hérna áfram, helst tengdan ferðaþjónustu. Upplifun ferðamanna er nokkuð og góð.“

Á eftir að sakna hljóðanna í teistunni

Hvers heldurðu að þú myndir helst sakna? „Ég held að það séu fuglahljóðin, eins klisjulega og það hljómar. Að sofna við teistuhljóminn það er bara frábært,“ segir Sigríður.

Á ábyggilega eftir að sjá eftir þessu

Sama fjölskyldan hefur byggt Vigur í meira en 130 ár. Salvar segir að það sölunni fylgi vissulega tregi. „Jú, auðvitað, ég á ábyggilega eftir að sjá eftir þessu alla ævi. En það er bara þannig. Þetta var bara ákvörðun sem að maður tekur.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi