
Mikil snjóþyngsli í Fjörðum
Fjörður eru nyrst á skaganum á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda og þær hafa um árabil verið vinsælt gönguland, það er að segja, þegar veðurguðirnir leyfa. Heimir Ásgeirsson, á Grenivík, segir að við fjárrekstur um miðjan júní hafi komið í ljós að snjóalög séu með mesta móti á leiðinni.
„Frændi minn, sem er 85 ára, hefur nánast farið á hverju ári síðan hann var bara um tvítugt — og ég er búinn að fara þarna í fjörutíu ár og ég man ekki eftir svona miklum snjó,“ segir Heimir.
„Yfirleitt er rekið í svona fjóra tíma á snjó, en nú voru þetta tólf tímar sem var rekið, og byrjaði bara fljótlega þegar komið er upp á heiðarbrúnina.“
Hægt er að aka í Fjörður um Leirdalsheiði en Heimir er svartsýnn á að leiðin verði opnuð í bráð.
„Það er náttúrlega búið að vera hlýtt og gott núna, en það er í giljum og töluvert mikið af snjó ennþá. Í fyrra þá var mikill snjór en samt minni en núna. Þá var mokað bara rétt fyrir verslunarmannahelgi,“ segir Heimir.
Og hann segir útséð um að hann standi fyrir skipulögðum ferðum í Fjörður í sumar líkt og undanfarin ár.
„Það verða engar ferðir frá Fjörðungum í sumar. Mönnum leist ekkert of vel á þetta, og svo vorum við með áætlaða ferð í fyrra og hún datt upp fyrir því að það var ekki orðið fært. Þá lengir þetta um eina nítján kílómetra sem þarf að labba,“ segir Heimir.