Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mikil snjóflóðahætta víða um land

08.02.2018 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Hætta á snjóflóðum hefur aukist mikið en snjó kefur kyngt niður víðast hvar á landinu síðustu daga. Útivistarfólk þarf að fara að öllu með gát. Ekkert lát verður á hríðarveðrinu um helgina.

Aldrei hafa fleiri stundað vetarútivist af ýmsu tagi og nú. Fjöld þeirra sem stunda fjallgöngur allan ársins hring, gönguskíði og ferðir á snjósleðum og fjallaskíðum hefur margfaldast á síðustu árum. En hætturnar leynast víða og því er nauðsynlegt að fara varlega og afla sér upplýsinga áður en lagt er af stað í vetrarfjalllendur.

Jónas Guðmundsson, hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, leggur áherslu á að menn séu ekki einir á ferð og hafi með sér nauðsynlegan búnað eins og skóflu, ýli og snjóflóðastöng. 

„Í ljósi þeirrar sprengingar sem hefur orðið í fjölda þeirra sem stunda snjósport síðustu árin þá væri gott að Veðurstofan fengi aukið fjármagn til að setja upp snjóflóðavaktir á fleiri stöðum, eins og til dæmis í kring um höfuðborgarsvæðið þar sem fjöldi manna stundar vetrarútivist í og við fjallendi.“

Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóða hjá Veðurstofunni, segir mestu hættuna vera þar sem fólk er á ferð til fjalla.

 „Þá getur verið hætta á því að fólkið sjálft setji af stað snjóflóð. Ef menn ætla til dæmis að að fara aðrar leiðir en hefðbundnar gönguleiðir upp að Steini í Esjunni þá eru menn bara komnir í alvöru fjall og þá þurfa menn virkilga að hafa varann á. Esjan er hættulegt fjall og þar geta myndast hættulegar snjóflóðaaðstæður eins og dæmin sýna.“

Spáin fyrir helgina er slæm. það er spáð hríðarveðri víðast hvar með talsverðri snjókomu. Búast má við að snjóflóðahætti aukist víða um helgina. Þegar mikill snjór safnast fyrir á stuttum tíma þá er hann oft óstöðugur fyrst á eftir.

„Þannig að fólk verður að fara varlega af stað í brattar brekkur rétt á eftir svona mikilli snjókomu. Það getur verið freistandi þegar það er komin sól og allt er hvítt og falleg fjöllin en menn verða að fara varlega í útivist eftir svona veður.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV