Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mikil skjálftavirkni í virkum eldfjöllum

30.01.2017 - 19:23
Fjórir stórir skjálftar urðu í Bárðarbungu í dag. Jarðskjálftavirkni í Kötlu, sem staðið hefur síðan í haust, er sú mesta í 40 ár, segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðiprófessor. Og þá séu Grímsvötn líka að undirbúa gos. 

Katla hélt sig á mottunni í dag en stærsti skjálftinn þar í síðustu viku mældist 4,3. Öðru máli gegnir um Bárðarbungu. Öflugasti skjálftinn þar mældist 4,3 klukkan 14:13, þá kom annar upp á 2,6 skömmu síðar, og sá þriðji 14:05, 4,1 að stærð. Upp úr klukkan þrjú kom svo annar upp á 3,4. 

„Það er greinilegt að Bárðarbunga er að búa sig undir næsta kafla í þessari framhaldssögu“, segir Páll Einarsson prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. 

Framhaldssagan byrjaði 1974 segir hann, og margt búið að gerast eins og Gjálpargosið 1996 og Holuhraunsgosið, og síðan hafi Bárðarbunga verið að undirbúa þrýsting sem skjálftarnir núna séu hluti af. 

„Hún þarf sennilega dálítið langan tíma til að byggja sig upp en það gæti gerst í miðjum klíðum. Við þurfum vissulega að vera á varðbergi gagnvart Bárðarbungu. Það er engin spurning. Svo er eitt eldfjall í viðbót, Grímsvötn, eru líka að undirbúa gos. Það er greinilegur aðdragandi í gangi þar líka.“

Mikil skjálftavirkni hefur verið síðan í haust í Kötlu. 

„Þetta ár núna er að vera með þeim órólegri en árið '76 og '77 var samt talsvert miklu órólegra heldur en þetta og það fylgdi þó ekkert gos á eftir því.“

Páll segir margt benda til að við höfum misst af síðustu gosum í Kötlu 1955, 1999 og 2011, það er að þau gos komu ekki upp á yfirborðið, og Kötlugos eru því ekki alltaf stórhamfarir, segir hann. 

Er kvikan að færa sig ofar? „Nei, eftir því sem við skiljum Kötlu þá getur litið þannig út að hún sé í raun og veru alltaf að því komin að gjósa. Þannig að það þarf kannski ekkert voðalega mikinn undirbúning fyrir næsta gos. Það getur brostið á tiltölulega skyndilega.“

Núna er hún búin að vera tilbúin lengi, er þetta þá eins lítill fyrirvari og verður með eldgos í Heklu?

„Sennilega fáum við betri fyrirvara á Kötlugosi heldur en Heklugosi og það liggur í því að ofan á Kötlu liggur jökull og hún þarf að bræða sig í gegnum jökulinn fyrst áður en hún getur gosið upp í loftið.“

En er tenging milli virkni í Bárðarbungu og Kötlu? Það er frekar ólíklegt segir Páll, en hugsanlegt að það sé einhver gikkur sem virki samtímis á báðar. 

„Við tökum til dæmis eftir því í dag er stærsti straumur í sjávarföllum. Það þýðir að áhrif tungls og sólar eru mest um þessar mundir. Og í sumum tilfellum hefur verið hægt að sýna fram á svoleiðis tengsl í eldfjöllum á jörðinni“
 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV