Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mikil losun CO2 ekki vísbending um Kötlugos

21.09.2018 - 00:48
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir nokkurs misskilnings hafa gætt í fréttaflutningi af miklu útstreymi koltvísýrings úr Kötlu. Margir hafi túlkað þetta sem svo að útstreymið væri vísbending um yfirvofandi gos, en sú sé ekki raunin.

Magnús Tumi fjallar um þetta á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar Háskólans og vísar til nýlegrar greinar Evgeníu Ilyinskayu og samstarfsfólks hennar um gríðarmikið útstreymi koltvísýrings frá Kötlu, sem er með því mesta sem þekkist í eldfjöllum hér á jörð.

Segir ekkert um yfirvofandi gos

Magnús segir þessar niðurstöður ekki segja neitt um það, hvort gos sé í aðsigi, né um stærð næsta goss, hvenær sem það verður, og bendir á að ekki sé minnst á þetta einu orði í grein Evgeníu og kollega hennar. Þær sýni einungis að koltvísýringur leiti upp úr iðrum Kötlu í miklum mæli og hafi gert það undanfarin ár. Hins vegar geti allt eins verið að útstreymið hafi verið jafn mikið í áratugi og afar óljóst sé hvort og þá hvernig þessi mikla losun tengist kvikuhólfi og kvikusöfnun undir Kötlu.

Hugsanlegt sé, segir Magnús Tumi, „að Katla virki eins og nokkurskonar ventill eða uppstreymisrás fyrir gas sem losnar úr kviku á miklu dýpi undir suðurhluta gosbeltisins.“  

Meginlærdómurinn sem draga má af mælingunum er hins vegar sá, að sögn Magnúsar Tuma, að það þurfi að gera miklu meiri og ítarlegri mælingar á Kötlu og öllu sem henni tengist. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir