Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mikil hætta á ferðum, segir Gunnar Bragi

06.10.2015 - 08:56
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Ef Rússar halda áfram að rjúfa lofthelgi Tyrklands, sem er í Nató, þá er mikil hætta á ferðum, segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Nató-ríkin muni verja Tyrklands ef Rússar haldi áfram. Rússneskar herþotur flugu inn í lofthelgi Tyrklands á laugardag og sunnudag.

Gunnar Bragi var gestur Óðins Jónssonar í Morgunvaktinni á rás 1 í morgun:
„Auðvitað er hætta á því ef Rússar halda áfram að rjúfa lofthelgi Tyrkja eða annarra Nató-ríkja þá er það að sjálfsögðu mikil hætta á að það verði einhvers konar árekstrar. Við vildum náttúrulega ekki sjá það að Nató og Rússar lentu í einhvers konar árekstrum eða átökum jafnvel þó það sé nú yfir í Sýrlandi eða Tyrklandi. En það er alveg ljóst að samkvæmt þeim samningum sem Nató-ríkin hafa þá munu þau verja Tyrkland ef að til þess kemur. Og þar af leiðandi munu Nató-þotur væntanlega styggja við, eða svona ýta þeim rússnesku burtu ef þess er þörf. En það er hætta á að þetta stigmagnist vissulega. En sem betur fer eru menn að tala saman og reyna að finna ástæðu fyrir því að þetta gerist og reyna að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. En af þetta heldur áfram að Rússar muni ekki hlusta á og ekki virða þessa lofthelgi þá er mikil hætta á ferðum, það er alveg ljóst.“