Steypubíllinn stóð við nýbyggingu við Vitastíg þegar honum var stolið. Bílnum var ekið niður fjölfarinn Laugaveg, Bankastræti, þaðan út Kalkofnsveg og út á Sæbraut þar sem hann geystist á móti umferð áður en hann fór upp á grasið, á milli götunnar og göngustígsins við sjóinn, og gaf þar í. Ökumaðurinn beygði loks út af þegar hann kom að Kassagerðinni við Dalbraut. Tromlan var á fullum snúningi allan tímann, en blessunarlega urðu ekki slys á á fólki. Ökumaðurinn var klæddur í vinnugalla og var handtekinn á hlaupum.
„Þetta er með því snúnara og erfiðara sem lögreglumenn geta staðið frammi fyrir. Það var mikil hætta þarna á ferðum. Stóran steypubíl fullan af steypu, þú stoppar hann ekkert svo auðveldlega og það tekur tíma,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Sex lögreglubílar fylgdu steypubílnum eftir, fyrir framan hann, til hliðar og á undan. Allir með sírenu og blikkandi ljós, ekki síst til að vara aðra vegfarendur og fótgangendur við.
„Það var enn í gangi þegar ökumaður bílsins kom sér sjálfur í vandræði, ákvað að hlaupa frá bílnum og var svo handsamaður af lögreglunni. Þannig að ég tel að þetta hafi farið eins vel og hægt var og að viðbragðið hafi verið mjög flott hjá lögreglunni.“