Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil flétta mannlegrar tilveru

Mynd: Dimma / Dimma

Mikil flétta mannlegrar tilveru

15.10.2019 - 15:27

Höfundar

Bókin Einmunatíð er fjölbreytt smásagnasafn eftir George Mackay Brown, eitt helsta skáld Orkneyja. Bókin kom nýverið út í íslenskri þýðingu og ætti að höfða vel til íslenskra lesenda, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Ísland og Orkneyjar voru um aldir á sama menningarsvæði ef svo má að orði komast, það voru rík tengsl milli fólks á þessum slóðum og það er meira að segja til ein saga sem kölluð er Orkneyinga saga, rituð á Íslandi og varðveitt í Flateyjarbók sjálfri. En það er fleira sem tengir okkur Íslendinga við Orkneyinga og raunar Skota alla að mínum dómi; fljótlega eftir að ég hóf að nema skoskar bókmenntir við Háskóla Íslands og síðar Edinborgarháskóla komst ég að því að hjartsláttur íslenskra 20. aldar bókmennta var mjög í takt við þann skoska. Allir Íslendingar sem lesa þríleikinn A Scots Quair, Skoska kverið, finna þegar fyrir þörf á samanburði við verk Halldórs Laxness enda voru þeir Lewis Grassic Gibbon á sama aldri og sömu stjórnmálaskoðana á fjórða áratug undangenginnar aldar. Sama má segja um verk Neils Gunns sem til að mynda skrifaði meistaraverkið The Silver Darlings eða Silfur hafsins fyrir mörgum áratugum og ég botna ekkert í hvers vegna ekki er búið að þýða fyrir löngu.

En skyldleikinn, ef svo má segja, er sterkastur þegar við skoðum höfunda frá Hjaltlandseyjum og Orkneyjum og það verður að segja þýðanda bókarinnar Einmunatíðar, Aðalsteini Ásbergi Sigurðssyni til hróss að hann hefur sinnt þessum höfundum bæði sem þýðandi og útgefandi. Höfundur þeirra bókar sem hér er undir, George Mackay Brown, fæddist 1921 á Orkneyjum og lést 1996 og átti hann langan og farsælan feril að baki sem ljóðskáld, sagnahöfundur og leikskáld; hann er í raun nokkurs konar „þjóðskáld“ Orkneyja, því að sögusvið hans tengdust heimahögunum oftast nær og þá er ég ekki að tala um væmnar upphafningar heimahaganna, heldur skarpar greiningar á mannlegu eðli og tilfinningum þar sem sögusviðið og mannfólkið er höfundi kunnugt. Sama gera íslenskir höfundar þegar þeir skrifa um íslenskan veruleika.

En Mackay Brown var líka iðinn við að skoða sögu Orkneyja í skrifum sínum og þá tengjast sögur þessara svæða vitaskuld enn frekar og frægust er kannski skáldsaga hans Magnus frá 1973 þar sem hann notar sér einmitt Orkneyinga sögu og aðrar heimildir til segja sögu frændanna og jarlanna Magnúsar Erlendssonar og Hákons Pálssonar á tólftu öld.

En að Einmunatíð; þetta var hans annað smásagnasafn og það sem kom honum á kortið sem sagnahöfundur, áður hafði hann gefið út ljóðabækur við góðar undirtektir. Í bókinni eru 12 smásögur og það er ljóst að þær eru meistaralega unnar og ekki síst þegar hugsað er til skyldleikans við íslensku miðaldabókmenntirnar sem Mackay Brown nýtir sér til að skrifa nútímalegar smásögur um fólk frá flestum öldum Orkneyja, þrettándu aldar víkinga og krossfara til síðustu sögunnar um unga höfundinn sem er að kjást við að skrifa bók um lífið og tilveruna, en hikstar á kaflanum um ástina.

Sumar sögurnar eru grimmilegar lýsingar á veruleika litlu sjávarþorpanna og bændalífsins á eyjunum og einn þráður er þar allsterkur, en það er sú hugfró og það helvíti sem áfengið veitir fólki, oftast körlum en einnig konum eins og í fyrstu sögunni „Selju“. Hún sýnir samt í hnotskurn hvernig Mackay Brown getur stillt upp manngerðum og möguleikum sem mætast og takast á með einhverjum hætti. Þetta er existensíalískur þráður í sögum þessa katólska skálds, en hann lét skírast á fullorðinsárum til þess siðar. En spurningin um ósvikið líf andspænis hinu vanlifaða virðist vera vakandi í mörgum þessara sagna og raunar fleiri verka Mackays Browns.

Titilsagan „Einmunatíð“ er einnig dæmi um þetta, þar kynnumst við einni gerðinni af Bjarti í Sumarhúsum, alla vega verður manni hugsað til hans í þessari fyrstu persónu frásögn manns sem þrjóskast lengi við, en sættir sig á endanum við takmarkanir sínar og tekur að sinna því sem hann getur best. Það er meira í þessari smásögu en margri þykkri skáldsögunni, manni finnst maður gjörþekkja persónurnar hans eftir aðeins nokkrar blaðsíður og hér kemur inn þessi „skyldleiki“ sem ég nefndi, við áttum og eigum höfunda sem miðla mannfólkinu á Íslandi gegnum tíma og reynslu á svipaðan hátt og getum þess vegna tengt enn betur við þetta.

Ekki vantar heldur fjölbreytni í stíl og efnistökum. Ein sagan er eins og blaðagrein í menningarkálfi héraðsblaðs þar sem bornar eru saman þrjár predikanir presta um brúðkaupið í Kana, einnar nýlegrar, einnar frá átjándu öld og einnar frá því fyrir siðskipti. Þarna sýnir Mackay Brown stílsnilli sína og hvernig hann getur sett sig inn í hugsunarhátt og stíl mismunandi alda. Reyndar er í þessum texta kannski eini staðurinn sem ég get aðeins potað í afbragðsgóða þýðingu Aðalsteins Ásbergs, þegar hann notar orðið veislustjóri í predikuninni frá því fyrir siðskipti, atriði sem ekki kom inn í þýðingar á frásögninni í Biblíunni fyrr en á síðustu öld.

En þýðingin er, eins og áður greindi afbragðsgóð, Aðalsteinn Ásberg fer þá leið að íslenska nöfn og staðarheiti, sem reyndar eru oftast nær upprunalega af því máli, en þetta færir sögurnar enn nær okkur íslenskum lesendum og þetta virkar fullkomlega af því bæði nöfnin og staðarheitin eiga sér þessar norrænu rætur. Séu nöfnin af öðrum rótum notar þýðandinn ensku útgáfuna.

Annar þráður í þessum sögum, sem við Íslendingar þekkjum líka vel úr okkar nútíma sagnaarfi, snýst um högg nútímans á hefðbundnum sveitasamfélögum og kemur þar fram með margvíslegum hætti, sagnaþulurinn sem enginn nennir að hlusta lengur á, útvarpið sem kemur inn á sveitaheimilið í fyrsta sinn og harmonikkan sem leysir af gömlu fiðluna sem brotin er í tætlur af heimamönnum sjálfum. „Nútíminn er trunta“ söng Egill einu sinni með Þursaflokknum og það má kannski segja sem svo að tækninýjungar og breytingar undanfarinna alda fái okkur til að hugsa oft í þá veruna. Núna eru það snjallsímarnir sem við og börnin getum varla litið af, og við sem ábyrgð eigum að bera höfum miklar áhyggjur um leið og við vitum að við vissum varla hvað við gætum gert við okkur sjálf ef einhver tæki þá af okkur í einu vetfangi.

Þriðji þráðurinn sem ég þykist sjá í þessum sögum er svo hugmyndin um hvernig lífið eigi að vera og hvernig það gæti orðið, hvernig harður veruleikinn heldur aftur af draumum og um leið hvernig sá harði veruleiki býður alveg upp á leiðir til að lifa ósvikið ef menn átta sig á því. Þetta er ljóðrænasti þráðurinn að mínum dómi, þótt prósinn sýni reyndar vel að höfundur og þýðandi standa báðir vel undir ljóðrænum tökum í prósaskrifum, en það er einhver anguværð í þessu sem færð er vel og vendilega niður á jörðina án þess þó að vera kveðin niður í einhverja þögn.

Þannig er þessi mikla flétta mannlegrar tilveru bundin saman og við sjáum í henni alla möguleikana og blindgöturnar sem við öll flækjumst um eins og sögupersónurnar sjálfar og ekki spillir fyrir okkur íslenska lesendur að okkur finnst við þekkja þær allar vel.