Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mikil eftirspurn eftir íslenskum lopa

26.03.2016 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Freimut Bahlo/Creative Commons
Svo mikil eftirspurn er eftir íslenskum lopa að Ístex undirbýr nú fjölgun starfsfólks og aukna framleiðslu. Ístex kaupir nær alla ull sem til fellur af íslensku sauðfé.

Ístex gerir árlega samning við Bændasamtökin um að safna saman og kaupa ull af bændum um allt land. Þetta er nær öll ull sem til fellur af íslensku sauðfé, en einhverjir bændur vinnur sína ull sjálfir.

Kaupa ríflega 1000 tonn af óhreinsaðri ull á ári 

Guðjón Kristinsson, framkvæmdastjóri Ístex, segir að árlega falli til ríflega 1000 tonn af óhreinni ull. „Það skiptist í haustrúna ull, svona 730 tonn, og síðan er það um 280 tonn af ull sem rúin er núna á þessum árstíma." Öll sú ull sem Ístex kaupir er þvegin í þvottastöð fyrirtækisins á Blönduósi. Um helmingurinn af henni er gæðaull sem fer til vinnslu á lopa í verksmiðju Ístex í Mosfellsbæ. Lakari ullin er seld óunnin úr landi.

Anna vart eftirspurn og farið að vanta starfsfólk

Guðjón segir að íslenski lopinn seljist mjög vel bæði innanlands og utan og ferðamenn kaupi mikið af ullarvörum. „Staðan hjá okkur í dag er einfaldlega þannig að við önnum vart eftirspurn og okkur er farið að vanta starfsfólk," segir Guðjón. Því hafi verið ákveðið að auglýsa eftir starfsfólki og fjölga vöktum til að auka framleiðslu á lopa svo hægt verði að anna eftirspurn. „Við höfum verið að auglýsa eftir fólki en atvinnuástandið hér er þannig að það er lítið atvinnleysi. Svo að eflaust þarf þá að flytja inn starfsfólk til þess að ná að auka framleiðsluna.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV