Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mikið undir í meirihlutaviðræðum í borginni

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Formlegar viðræður Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna um myndun meirihluta í Reykjavík hefjast í dag. Flokkarnir í fráfarandi meirihluta hafa fáa aðra möguleika til að halda völdum og því eiga þeir, og sérstaklega Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, mikið undir því að viðræðurnar gangi vel.

Það eru tuttugu dagar þar til ný borgarstjórn heldur sinn fyrsta borgarstjórnarfund og stefnt er að því að samstarfssáttmáli nýs meirihluti verði tilbúinn nokkru fyrir þann fund. Í tilkynningu frá Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar, segir að hann eigi að liggja fyrir í góðum tíma fyrir fyrsta fund og því má gera ráð fyrir viku til tíu daga viðræðum. Ef samkomulag næst standa tólf borgarfulltrúar að þessum meirihluta, sem er minnsti mögulegi meirihluti en samtals hafa flokkarnir á bak við sig 46,35 prósent atkvæða.

23 sitja í nýrri borgarstjórn en borgarfulltrúar voru fimmtán á síðasta kjörtímabili. Samfylkingin er með sjö borgarfulltrúa, Píratar tvo, Viðreisn tvo og Vinstri græn einn. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, segist ætla að leggja áherslu á að leysa þann bráðavanda sem snýr að húsnæðismálum. Píratar hafi átt í góðu samstarfi við Samfylkinguna og VG á liðnu kjörtímabili og hún vilji halda því áfram. Dóra segir margt sameina flokkana fjóra „Ég á ekki von á öðru en að þetta muni bara takast og að við munum ná að koma mjög mörgum málum í gegn fyrir borgarbúa,“ sagði Dóra Björt í kvöldfréttum sjónvarps í gær. 

Tveir úr hverjum flokki taka þátt í viðræðunum sem hefjast í dag. Eitt af því sem þarf að ná saman um, og margir hafa velt fyrir sér, er hver verði næsti borgarstjóri. Víða var talað um að Viðreisn gerði þá kröfu að Dagur B. Eggertsson, sem var borgarstjóri á liðnu kjörtímabili, stígi til hliðar og nýr taki við. Bæði Þórdís Lóa og Pawel Bartoszek, nýkjörinn borgarfulltrúi Viðreisnar, hafa þvertekið fyrir það. Pawel sagði í gær að þessar kröfur væru ekkert nema slúður, og Þórdís Lóa tók undir. Dagur sagði í Silfrinu, degi eftir kosningar, að hann myndi sækjast eftir borgarstjórastólnum og hann sæi raunar ekki hver annar en hann kæmi til greina. 

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, segir það koma örlítið á óvart að flokkarnir fjórir skuli hafa ákveðið að hefja meirihlutaviðræður. „Úrslit kosninganna á laugardag voru auðvitað á þann veg að Samfylkingin og VG fengu útreið og þetta sýnist mér vera merki um að Dagur er reiðubúin að eftirláta borgarstjórastólinn til Þórdísar Lóu,“ segir Vigdís.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, vonaðist sjálfur til þess að fá að leiða viðræður og segir þetta ekki í anda þeirrar niðurstöðu sem birtist í kosningunum. Með þessum viðræðum sé aðeins verið að reyna að framlengja líf meirihluta sem hafi kolfallið í kosningunum. „Það er engin leið að sjá að kröfunni um breytingar hafi verið mætt með þessum viðræðum,“ segir Eyþór og bætir við að það sé óskynsamlegt fyrir þá flokka sem töpuðu fylgi að reyna að halda í völdin. Stjórnarandstaðan, undir forystu Sjálfstæðisflokksins verði öflug og sterk. „Ef þetta gengur saman þá mun Sjálfstæðisflokkurinn vinna stórsigur í borginni eftir fjögur ár,“ segir Eyþór.

Fari sem horfir verður Sjálfstæðisflokkurinn með átta borgarfulltrúa í stjórnarandstöðu og Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur Íslands einn mann hver. Sá síðastnefndi birti yfirlýsingu á þriðjudagskvöld um að hann tæki ekki þátt í viðræðum um meirihlutasamstarf. Þetta hafi verið framboð hinna valdalausu í borginni og einn borgarfulltrúi, tjóðraður niður í meirihlutasamstarf við aðra flokka fengi litlu áorkað. Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, lýsti vonbrigðum með þá ákvörðun að flokkurinn hafi ekki viljað láta reyna á það hverju væri hægt að ná fram í viðræðunum. Það var líklega eini raunhæfi möguleikinn til að styrkja meirihlutann, sem eins og áður segir stendur og fellur með einum manni. 

Nokkra athygli vakti að Þórdís Lóa sendi út fréttatilkynninguna í gær, fyrir hönd flokkanna fjögurra. Hún segir að það beri þó ekki að túlka það þannig að hún eða Viðreisn leiði viðræðurnar. Hún segist hafa rætt við oddvita allra flokka síðustu daga, meðal annars bæði Vigdísi og Eyþór, og sent honum skilaboð til að upplýsa hann um að hún myndi hefja viðræður við flokkana þrjá í fráfarandi meirihluta. Björt framtíð var með tvo borgarfulltrúa í fráfarandi meirihluta en flokkurinn fékk tæp sextán prósent atkvæða í síðustu kosningum. Þórdís segir að nú hefjist nýr kafli, Viðreisn ætli ekki að taka sæti Bjartrar framtíðar.