Mikið tjón í miðbænum - góðkunningi grunaður um aðild

Eldur kviknaði í skemmtistaðnum Pablo Discobar á þriðju hæð í gömlu timburhúsi við Veltusund/Ingólfstorg á tólfta tímanum að kvöldi miðvikudagins 18. mars. Allt tiltækt slökkvilið var sent á vettvang. Vel gekk að slökkva eldinn, sem breiddist ekki út til nærliggjandi húsa.
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Mikið tjón varð í eldsvoða í húsakynnum skemmtistaðar og veitingahúss í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Þrítugur karlamaður, sem var handtekinn á vettvangi, er enn í haldi lögreglu, grunaður um aðild að málinu. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu.

Eldurinn kviknaði í húsakynnum skemmtistaðarins Pablo Discobar við Veltusund um klukkan ellefu í gærkvöldi. Allt tiltækt slökkvilið var kallað út, enda er skemmtistaðurinn á þriðju hæð í stóru timburhúsi. Á annarri hæð er veitingastaðurinn Burro, og er innangengt á milli. Þónokkur eldur logaði í húsinu og mikinn reyk lagði frá því, og um tíma var óttast að eldurinn bærist í samliggjandi hús. Það gerðist þó ekki, slökkvistarf gekk vel og því lauk um klukkan fjögur í nótt.

Þrítugur karlmaður var handtekinn á vettvangi og er hann enn í haldi. Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að maðurinn sé grunaður um aðild að málinu. Ákvörðun um gæsluvarðhaldskröfu verði tekin síðar í dag. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu.

Tæknideild lögreglunnar hefur verið að störfum á vettvangi í morgun, en Guðmundur Páll segir ljóst að tjónið á húsinu sé mikið.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi