Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mikið gert úr hegðun Hatara í græna herberginu

25.05.2019 - 14:29
Mynd: RÚV / RÚV
Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir of mikið hafa verið gert úr því þegar Hatari dró upp borða í fánalitum Palestínu í Eurovision. Atvikið varð, eins og flestum er kunnugt, þegar verið var að tilkynna stig Íslands í atkvæðagreiðslunni í söngvakeppninni í síðustu viku. 

„Þeir eru bara að sýna fána eða borða og manni finnst svolítið mikið gert úr því. Það er svolítið skrýtið hvað er mikið gert úr því. Þetta er ríki sem Ísland er löngu búið að viðurkenna sem sjálfstætt ríki. Þetta er bara svolítið í takti við það sem eðlilegt þykir. Mér fannst lagið skemmtilegt,“ sagði Áslaug Arna í Vikunni með Gísla Marteini Baldurssyni. Hún ræddi þar fréttir vikunnar ásamt Birni Thors leikara og Bubba Morthens. 

Áslaug Arna tók undir sjónarmið sem fram komu í þættinum um að mannréttindabarátta samkynhneigðra væri einnig pólitísk barátta. „Maður hefur komist að því í vinnunni sem formaður utanríkismálanefndar hvað málefni samkynhneigðra eru viðkvæm í rosalega mörgum ríkjum enn þá. Það er erfitt að koma þeim á dagskrá Alþjóðaþingmannasamtakanna og víðar þar sem fólk vill ekki einu sinni ræða málefnin,“ sagði Áslaug og benti á að fána samkynhneigðra hefði einnig verið veifað í Eurovision-keppninni. „Svo er þessi keppni oft í löndum eins og Rússlandi, Úkraínu og Aserbaísjan og það er alltaf áskorun hvernig við eigum að fara inn í það,“ sagði Áslaug Arna.