Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mikið borðað af skyri síðustu daga“

12.12.2019 - 11:23
Mynd með færslu
Heimilisfólk á Höfða bjargar marens frá skemmdum Mynd: Ásta F. Flosadóttir
Margir bæir í Grýtubakkahreppi eru enn rafmagnslausir þó rafmagn sé komið á Grenivík. Á jörðinni Fagrabæ liggja raflínur niðri. Þeir bændur sem fréttastofa náði tali af taka stöðunni þó með stóískri ró.

Ásta Flosadóttir, skólastjóri og sauðfjárbóndi, býr á Höfða í Grýtubakkahreppi. Þar er enn rafmagnslaust en rafmagnið fór um kaffileitið á þriðjudag. Hún fékk far með björgunarsveitinni til vinnu í morgun og þangað var hún nýmætt þegar fréttastofa náði tali af henni. Hún var hin hressasta og sagðist eiginlega vera með ofbirtu í augunum. 

Hún segir síðustu daga búna að vera frekar athyglisverða og mikið hafi verið borðað af skyri. Á Höfða sé sem betur fer hitaveita svo hiti var á húsunum og þegar það fór að þiðna í frystinum hafi heimilisfólk stokkið til og bjargað marens og öðru frá skemmdum. Hún segir í raun ekki verið hægt að gera neitt nema sitja við kertaljós og spila.

„Símasamband hélst á allan tímann en netið var lélegt,“ segir Ásta. Þau eigi útvarp með batteríum svo þau hafi alltaf getað hlustað á fréttir. Vegna rafmagnsleysis var þó ekki hægt að hlaða síma, því skiptust ábúendur á að hafa kveikt á símunum til að þeir entust lengur. Hún segir nágranna hafa komið rafstöð í gang til að mjólka kýrnar og þangað hafi þau svo fengið að fara til að hlaða símana.

Þið hafið ekki nýtt bílana til að hlaða símana? „Bílarnir voru á svartakafi svo það var ekki hægt að hlaða þar.“

Stórir frystiklefar án rafmagns

Guðmundur Björnsson rafvirkjameistari og bóndi á Fagrabæ í Grýtubakkahreppi segir raflínurnar liggja niðri í gegnum alla landareignina. Þar hafi líka þakplötur fokið af fjárhúsunum. Kindurnar hafi það þó fínt þar sem hitinn haldist ágætlega í húsunum. Þar sé þó allt orðið vel blautt og ógeðslegt.

„Maður er eiginlega búinn að gleyma þessu,“ segir Guðmundur spurður að því hvernig það sé að upplifa svona langt rafmagnsleysi. Á Fagrabæ er mikil heimavinnsla og segir Guðmundur það vera það sem sé farið að taka á. Þar sé kjöt fyrir einhverjar milljónir í frystiklefunum sem þoli rafmagnsleysið ekki mikið lengur. Hann sé því á leið til Akureyrar þegar hann verði búinn að moka heimreiðina. Þar ætli hann að kaupa rafstöð til að bjarga þessum verðmætum þar sem hann sjái ekki frammá að fá rafmagn á næstu dögum. 

Hentugt að vera rafvirki

Á Fagrabæ er ekki hitaveita og segir Guðmundur húsin vera orðin köld. Það bjargi því að þau séu með kamínu sem þau geti hitað smá upp með. Lítil gömul rafstöð var til á bænum sem þau grófu upp í gær og gerðu við, þá náðu þau að koma smá rafmagni á húsið og sjá sjónvarpsfréttirnar. Hann segir ágætt að vera rafvirki á svona tímum, það séu vírar um allt hús til að tengja hitt og þetta.