Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikið áfall þegar loðnuvertíðin brást

22.03.2019 - 20:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Loðnubresturinn bitnar illa á fyrirtækjum sem sérhæfa sig í þjónustu við sjávarútveginn. Fyrirtækið Tandraberg í Fjarðabyggð þurfti að skera niður og segja upp fólki og eigandinn segir erfiða mánuði framundan.

Starfsemi Tandrabergs er tvískipt; þjónusta við löndun og uppskipun og framleiðsla á vörubrettum. Nær öll þjónusta fyrirtækisins er við sjávarútveginn og aldrei meira að gera en í loðnuvertíð.

Fjórðungi starfsmanna sagt upp

Það varð því mikið áfall þegar loðnuvertíðin brást. „Venjulega þá ættu allir að vera að vinna eins mikið og þeir gætu. En í staðinn fyrir það er maður núna að berjast við það að láta menn vinna í átta klukkutíma,“ segir Einar Birgir Kristjánsson, eigandi Tandrabergs. Hann neyddist til að segja upp fjórðungi starfsmanna sinna, tólf af fimmtíu, sem hættu um síðustu mánaðarmót.

2000 bretti á dag í loðnuvertíð

Á meðan loðnuvertíð stendur yfir, fara um 2000 bretti út úr brettaverksmiðjunni á dag, til notkunar hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. En þar sem engin loðnuvertíð var í ár, fór ekki eitt einasta bretti í þá vinnslu. „Einu brettin sem við erum að afgreiða núna eru fyrir álverið og fyrir fiskeldið,“ segir Einar og ef hann hefði ekki þau viðskipti væri brettaverskmiðjan lokuð. „Við stöndum hérna til dæmis og horfum á vél sem er bara átta mánaða gömul. Við vorum að tvöfalda framleiðslugetuna hérna, bara í fyrrasumar.“

Margir erfiðir mánuðir framundan

Nær eina vinnan við löndun undanfarið hefur verið kolmunnalöndun. Kolmunnaveiðin hófst fyrr í ár út af loðnubrestinum og þar sem ekki hafði verið samið við Færeyinga um veiðar í þeirra lögsögu. „Og það voru alveg gríðarlegar gleðifréttir að það skyldu hafa náðst samningar við Færeyinga. Það skiptir okkur miklu máli,“ segir Einar. En hann segir að næstu mánuðir verði erfiðir og löng bið eftir næstu vertíð, makrílvertíðinni, sem hefst ekki fyrr en í júlí. „Ég er ekki búinn að gefast upp, en þetta er trist,“ segir Einar.