Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mike Leigh heiðursgestur á RIFF

epa04207830 British director Mike Leigh arrives for the screening of 'Mr Turner' during the 67th annual Cannes Film Festival, in Cannes, France, 15 May 2014. The movie is presented in the Official Competition of the festival which runs from 14
 Mynd:

Mike Leigh heiðursgestur á RIFF

29.08.2014 - 19:25
Breski kvikmyndaleikstjórinn Mike Leigh verður heiðursgestur á Alþjóðlegri Kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í september. Nýjasta mynd hans verður sýnd á hátíðinni, en hún fjallar um enska málarann Turner.

Mike Leigh er einn ástælasti kvikmyndaleikstjóri Breta og hefur hlotið fjölda verðlauna á ferlinum. Nú bætist í safnið, en forseti Íslands mun veita honum heiðursverðlaun RIFF fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistarinnar þann 1. október næstkomandi.

„Mike Leigh hefur verið meðal fremstu leikstjóra evrópu síðustu 25 ár og náttúrulega alfremstur meðal breskra leikstjóra. Hann skaust upp á stjörnuhimininn í upphafi 10. áratugarins og er þekktur hér fyrir Secrets and lies sem vann gullpálmann 1996 og var mjög vinsæl hér,“ segir Atli Bollason, framleiðandi RIFF. „Það sem er kannski sérstakt við Mike Leigh er að hann hefur aldrei misst dampinn hann hefur haldið áfram að gera gæðamyndir og nýjasta myndin hans sem við sýnum, hún heitir Mr. Turner, og gagnrýnendur eru að missa sig yfir henni. Það er eiginlega fáránlegt. Hún er með hundrað af hundrað á Rotten tomatoes.“

Myndin, sem var frumsýnd í Cannes í vor, fjallar um stormasama ævi höfuðmálara rómantíska landslagsmálverksins, Turners, sem hefur verið leikstjóranum innblástur um árabil. Auk þess að taka við heiðursverðlaunum mun Leigh svara spurningum áhorfenda þegar Herra Turner verður frumsýnd og taka þátt í sérstökum masterklassa í hátíðarsal Háskóla Íslands.

„Mike Leigh er vinalegur náungi, hann ætlar að koma hingað og taka kærustuna sína með sér og skoða landið og við hlökkum til að hitta hann,“ segir Atli.