Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Mig langaði að skrifa skáldsögu um kindur“

Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason

„Mig langaði að skrifa skáldsögu um kindur“

09.02.2018 - 14:20

Höfundar

„Það er auðvitað alveg ömurleg hugmynd að ætla að skrifa skáldsögu um kindur,“ segir Ófeigur Sigurðsson rithöfundur um aðdraganda skáldsögunnar Öræfi, „nema að um sé að ræða villikindur.“

Villifé kemur vissulega við sögu í skáldsögunni Öræfi, tungumál og táknsæi jökulsins er þó sterkari þáttur í hægri famvindu sögunnar, sem snýst meðal annars um rannsókn á ákveðnum löngu liðnum atburði. Táknsæi jökulsins í nálgun Ófeigs á þó fátt sameiginlegt hinum hefðbundna skilningi rómantíkurinn þar sem jökullinn er eins og „vegvísirinn að föðurlandinu [...] en í þessari bók er jökulinn móðir.“

Í máli sínu á ráðstefnunni Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu, sem fram fór á Höfn í Hornafirði í apríl 2017, undirstrikaði Ófeigur hversu undarlegt það er „til þess að hugsa að jafn ungt tákn og jökullinn skuli nú óðum vera að hverfa.“

Heilög fjöll, undirvitundin og glataður heiður

Jökullinn er gjarna tengdur hinu háleita en hin „mikla reynsla sem við finnum fyrir andspænis þessu ósegjanlega bákni er hins vegar jafn djúpstæð og hún er háleit,“ segir Ófeigur ennfremur og spyr: Er jökullinn dulvitundin? Dulvitundinni, óvitundinni eða undirvitundinni hefur stundum verið líkt við ís þar sem toppurinn er meðvitundin en undirniðri er margfalt stærra bákn sem er dulvitundin.

Sigmund Freud sagði dulvitundina eiga sitt eigið tungumál, afar frumstætt og án málfræði. Svissneski sálgreinandinn Carl Jung hins vegar sagði dulvitundina tala í táknum og myndhverfingum á meðan hinn franski Jaques Lacan vildi meina að tungumál dulvitundarinnar væri háþróað og nauðsynlegt að ráða.

Í þeim tilgangi leitaði Ófeigur í smiðju svissneska málvísindamannsins Ferdinand de Saussure sem er mikilvægt að láta getið á íslenskri ráðstefnu um jökla í bókmenntum, listum og lífinu því langafi málvísindamannsins hefur í sögu jarðvísinda verið kallaður faðir jöklafræðinnar. Sá titill hæfir þó að margra áliti betur íslenska lækninum Sveini Pálssyni. Ferðabók Sveins með ítarlegum köflum bæði um eldfjöll og jökla, sem var tilbúin þegar um aldamótin 1800, lá hins vegar óútgefin og því alþjóðalegu fræðasamfélagi óþekkt allt fram á miðja síðustu öld.

Örnefnafræðingur á jökli

Skáldsaga Ófeigs Sigurðssonar, Öræfi, segir frá austurískum örnefnafræðingi sem komin er til Íslands til að leita móður sinnar sem löngu fyrr hafði ferðast um jökulinn og snúið heim til sonarins önnur en sú sem hafði kvatt hann þegar hún hélt í ferðlagið enda orðið fórnarlamb hræðilegs glæps sem sonurinn hyggst grafast fyrir um

Á ráðstefnunni las Ófeigur kafla úr skáldsögunn þar sem segir frá upphafi ferðar örnefnafræðingins með stefnu á Breiðamerkurjökul.

Breiðamerkurjökull. Mynd: Andreas Tille.
Breiðamerkurjökull. Mynd úr safni. Mynd: Andreas Tille - Wiki Commons
Maður á leið á Breiðamerkurjökull. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Skáldsagan Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson hlaut mjög góðar viðtökur þegar hún kom út árið 2014 og hlaut Ófeigur meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir. Sagan er löng og fer víða bæði í tíma og rúmi. Hún gerist bæði austur í Öræfum þar sem jöklar hopa og hverfa vegna áhrifa loftslagsbreytinga af mannavöldum sem og á skemmtistaðnum Sirkus sem af mannavöldum er alveg horfinn úr borgarlandslagi Reykjavíkur.

Ófeigur Sigurðsson sendi frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina Skál fyrir skammdeginu árið 2001. Næsta ljóðabók var Handlöngun sem kom út árið 2003. Fyrsta skáldsaga Ófeigs  Áferð kom svo út árið 2005 og fimm árum síðar skáldsagan Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Árið 2012 var svo komið að skáldsögunni Landvættir og Öræfum tveimur árum síðar. Ljóðabækur Ófeigs á þessu sama tímabili voru Roði árið 2006, Provence í endursýningu og Tvítólaveislan árið 2008.