Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miðstöð um tónlist Arvo Pärt, skóginn og þögnina

Mynd: Arvo Pärt miðstöðin / Arvo Pärt miðstöðin /Faceboo

Miðstöð um tónlist Arvo Pärt, skóginn og þögnina

03.03.2020 - 10:19

Höfundar

Á skaga sem gengur út í Finnska flóa, um 30 km frá Tallinn, höfuðborg Eistlands, er starfrækt óvenjuleg miðstöð sem hverfist um tónverk, ævi og störf eistneska tónskáldsins Arvos Pärt. Hún er einstök í ljósi þess að hún er tileinkuð starfandi tónskáldi. Arvo Pärt er í dag 84 ára.

Miðstöðin birtist gestinum eftir stutta göngu eftir skógarstíg af bílastæði. Þetta er bæði óvenjuleg og falleg bygging sem hlykkjast í hring, ávöl og að mestu án þess sem kalla má horn. Miðstöðin geymir bréf tónskáldsins, nótur og persónuleg gögn. Hún er miðstöð tónlistarmanna og þeirra sem rannsaka verk Pärts, henni er ætlað að miðla hugmyndum hans um tónlist og veröldina og þar er líka tónleikasalur þar sem tónlist hans og annarra tónskálda er flutt. 
Arvo Pärt-stofnuninni var komið á fót 2010 eftir að tónskáldið flutti að fullu aftur til heimalandsins frá Þýskalandi.

Byggingin sjálf, sem hönnuð var af spænskum arkitektahjónum, Fuensanta Nieto og Enrique Sobejano, var síðan opnuð í október 2018 að undangenginni samkeppni sem sjötíu arkitektafyrirtæki tóku þátt í. Hjónin eru miklir aðdáendur tónskáldsins og fengu innblástur úr einu frægasta tónverki hans, Tabula Rasa, við sjálfa hönnunina. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Arvo Pärt á sér aðdáendur víða um heim og Eistar eru stoltir af honum og tónlistinni.

Ár í útlegð

Ár Arvos Pärt í Þýskalandi voru einkar gjöful hvað tónsmíðar varðar. Þangað hélt hann árið 1980 eftir ritskoðunartilburði og gagnrýni sovéskra pótintáta sem þá vildu vasast í menningu og tónlist eins og flestu öðru í Eistlandi á Sovétárunum.

Gagnasafn tónskáldsins frá þessum árum er gríðarlegt. Þýsk yfirvöld buðust á sínum tíma til að taka gögnin að sér en tónskáldið sjálft lifir í nánu sambandi við fyrri verk sín og vildi ekki læsa efnið inni heldur opna aðgang að því í heimalandinu. Gögnin sem fjölskyldan flutti með sér aftur til Eistlands árið 2010 vógu um fjögur tonn. Það auðveldaði verkið að Nora, eiginkona tónskáldsins, er tónlistarfræðingur og hafði haldið vel utan um allt saman. 

Mikill áhugi

Annar tveggja sona tónskáldsins, Michael Pärt, segir að miðstöðin hafi fengið mjög góðar viðtökur. „Við bjuggumst við tuttugu þúsund gestum fyrsta árið en þeir urðu ríflega tvöfalt fleiri,“ segir hann. „Auðvitað voru Eistar í meirihluta en við höfum líka fengið gesti hingað frá öllum heimshornum og það sem meira er, hingað hafa komið rannsakendur frá ýmsum löndum líka og það er mikilvægt að rækta þann hluta starfseminnar.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Arvo Pärt miðstöðin - Arvo Pärt miðstöðin /Faceboo
Í miðri byggingunni leynist lítil kapella en verk Pärts eru mótuð af trúnni.

Þögnin er ríkur þáttur í tónlist Arvos Pärt og Michael bendir á að við aukinn fjölda gesta vakni spurningar um hvenær þögnin hætti á svona stað, hún er jú mikilvægur þáttur í upplifun staðarins og hana þurfi að vernda, ekki síst yfir sumarmánuðina.

„Hugmyndin með þessum stað er sú að maður heyri og upplifi tónlistina,“ segir hann „og átti sig á mikilvægi þagnarinnar líka. Bara ferðin á skagann þar sem miðstöðin stendur, hvernig fólk fer út úr bílum og gengur í ró að húsinu, undirstrikar þessa leit.“ 

„Foreldrar mínir taka ríkan þátt í öllu starfi okkar hér,“ segir Michael. „Þau búa hér í skóginum og tengsl þeirra við þennan stað eru rík, meðal annars vegna þess að hér átti tónskáldið Heino Eller, tónsmíðakennari föður míns, sumarhús og þangað komu nemendur hans. Nafn skagans þar sem byggingin stendur í skóginum, Laulasmaa, þýðir líka „land söngsins“ og hér er eitt þorp kennt við hljóð og skógurinn er kenndur við bjöllur sem vitanlega rímar vel við bjöllu-tónsmíðatækni föður míns, tintinabuli-stílinn, sem svo er kallaður. Þetta tengist því allt vel og fallega.“

Útsendari Víðsjár á Rás 1, í för með norrænu og baltnesku útvarpsfólki, skoðaði miðstöðina og gaf skýrslu í þættinum. Heyra má frá heimsókninni hér að ofan. Þar heyrist í Michael Pärt, Riin Eensalu starfsmanni miðstöðvarinnar og eistneska útvarpsmanninum Ivo Heinloo. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arvo Pärt miðstöðin - Arvo Pärt miðstöðin /Faceboo
Byggingin er óvenjuleg og falleg en við hana stendur turn þar sem sjá má út að hafi.