Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Midge Ure með Todmobile í Eldborg

Mynd: EPA / EPA

Midge Ure með Todmobile í Eldborg

25.05.2018 - 13:22

Höfundar

Breski söngvarinn og lagahöfundurinn Midge Ure sem leiddi hina geysivinsælu hljómsveit Ultravox er væntanlegur til Íslands. Hann mun koma fram á tónleikum með Todmobile í Eldborg í tilefni af 30 ára afmæli sveitarinnar.

Midge Ure hefur verið í sveitum eins og Visage, Thin Lizzy og Ultravox en síðast nefnda sveitin var geysivinsæl á níunda áratugnum og átti smelli eins og „Vienna“ og „Dancing With Tears In My Eyes“. Árið 1984 samdi hann hins vegar eitt vinsælasta jólalag allra tíma, „Do They Know It's Christmas“, í félagi við Bob Geldof, en allur ágóði lagsins fór í mataraðstoð vegna mikillar hungursneyðar í Eþíópíu á þeim tíma. „Bob Geldof hringdi í mig og sagðist hafa séð hræðilegar myndir af sveltandi börnum í sjónvarpinu og hann hafi viljað gera eitthvað í málunum og bað mig að hjálpa sér,“ segir Ure í samtali við Rokkland.

Þeir Geldof og Ure hafi svo lagt höfuðin í bleyti og komist að þeirri niðurstöðu að besta leiðin fyrir þá til að afla mestu fé til hjálparstarfa væri að semja vinsælt jólalag. „En það er ekki auðvelt að semja svoleiðis lag, en okkur datt í hug að ef við fengum nógu mikið af frægum söngvurum til að syngja á upptökunni þá þurfi lagið ekki að vera sérstaklega gott,“ segir Ure léttur í bragði. Á þessum tíma var hann nýbúinn að setja upp sitt fyrsta hljóðver og dvaldi þar í fimm daga að semja lag við texta Geldofs, og hann lék sjálfur á öll hljóðfærin inn á upptökuna, fyrir utan það að Phil Collins barði trommurnar.

Yfir 20 söngvarar úr mörgum vinsælustu hljómsveitum Bretlands komu að laginu og mynduðu ofursveitina Band Aid, en þar á meðal voru Simon Le Bon, George Michael, Sting, Boy George og Paul Weller. „Allir þessir söngvarar samþykktu að taka þátt án þess að einu sinni hafa heyrt lagið því málstaðurinn var svo góður,“ segir Ure. Þeir hafi hins vegar hafta bara einn sólarhring til að taka upp alla söngvarana því það varð að koma smáskífunni í framleiðslu ef hún átti að koma út fyrir jólin. „Þetta var algjör martröð, allir þurftu að syngja sinn part fyrir framan alla hina keppinauta sína, þetta var sunnudagur og allir voru þunnir.“

Í spilaranum efst í færslunni má heyra bút úr viðtali Óla Palla við Midge Ure. Viðtalið í heild sinni verður flutt Rokklandi á sunnudaginn. Á tónleikunum í Eldborg 2. nóvember flytja Todmobile og Midge Ure, ásamt SinfoniaNord, öll vinsælustu lög Todmobile, Ultravox og Midge Ure.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Todmobile sameinar Yes og Genesis í London