Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miðflokkur og Píratar gagnrýna frumvarpið

07.09.2019 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins telur að endurskoða þurfi forsendur fjárlagafrumvarpsins því í því sé gert ráð fyrir miklum hagvexti. Þá þýði afnám samsköttunar hjóna hækkun skatta um samtals þrjá milljarða króna. Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata segir kosningabrag á skattalækkunum í frumvarpinu og ekki sé tekið á rekstrarvanda í heilbrigðiskerfinu.

Aths. Fjármálaráðherra segir staðreyndavillur í málflutningi þingmannanna. Sjá þessa frétt hér. 

Ólafur segir að efnahagslegar forsendur frumvarpsins séu nokkuð bjartsýnar því gert sé ráð á milli 2-3 prósenta hagvexti á næsta ári en hagvöxturinn nú sé um eitt prósent á þessu ári: 

„Þannig að það gæti farið svo að það þyrfti að endurskoða þetta fjárlagafrumvarp áður en langt um líður vegna þess að tekjuhliðin gæti verið umtalsvert ofmetin.“

Ólafur segir Miðflokkinn hefði viljað sjá lengra gengið í að lækka tryggingagjald á fyrirtæki en það kæmi sér vel þegar hægst hafi um í efnahagslífinu:

„Slík aðgerð gagnast auðvitað best litlum og meðastórum fyrirtækjum og gerir þeim betur kleift að bæta við sig starfsfólki og bæta kjör þeirra sem að fyrir eru. Ég vil vekja sérstaklega athygli á því að það á að fella niður það sem hingað til hefur verið kallað samsköttun milli hjóna eða sambýlisfólks. Þessi aðgerð sýnist annars vegar vera tilefnislaus og hins vegar ekki skynsamleg.“  

Þessi aðgerð eigi ekki eftir að lækka skatta heldur hækka því niðurfelling samsköttunar eigi að skila ríkissjóði þremur milljörðum í tekjur. 

Björn Leví Gunnarsson fulltrúi Pírata í fjárlaganefnd segir Pírata hafa ýmsar athugasemdir til dæmis um heilbrigðiskerfið og Landspítalann, þar sé sami rekstrarvandi og undanfarin ár en ekki boðið upp á neinar lausnir. Þá vanti í frumvarpið kostnaðarmat á öllum aðgerðum stjórnvalda: 

„Það er ákveðinn kosningabragur finnst mér alla vega á skattalækkum. Og lækkun persónuafsláttar er mjög áhugavert og getur komið niður á fólki sem er í hlutastarfi til dæmis.“

Hvað með skattalækkanir sem boðaðar eru, tekjuskatts?

„Þær eru jákvæðari heldur en var boðað í fjármálaáætlun þar sem að það er jafnað aðeins út hvernig áhrif þær hafa upp tekjustigann. En það skilur ennþá eftir fólkið sem er á allra lægstu laununum.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV