Miðborgarálagið hefur lækkað verulega

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Mjög hefur dregið úr verðmun á nýjum seldum íbúðum í miðborg Reykjavíkur og öðrum hverfum höfuðborgarsvæðisins. Nýjar íbúðir í miðborginni eru umtalsvert minni en áður.

Fjallað er um uppbyggingu húsnæðis í miðborginni í nýrri Hagsjá Landsbankans í tengslum við fréttir af því að hægt gangi að selja lúxusíbúðir í miðborginni og að framboðið sé nú þegar töluvert meira en eftirspurn á því verði sem býðst.

Dregur saman með miðborginni og öðrum hverfum

Á árinu 2017 var meðalverð í miðborginni 20 prósentum hærra en í nálægum hverfum og rúmlega 30 prósentum hærra en á höfuðborgarsvæðinu öllu. Það sem af er þessu ári hefur söluverð nýrra íbúða í miðborginni einungis verið sex prósentum hærra en í nálægum hverfum og um 16 prósentum hærra en meðaltal höfuðborgarsvæðisins.

Er það mat sérfræðinga Landsbankans að hið svokallað miðborgarálag hafi lækkað verulega á þessu tímabili.

Þessu til viðbótar hafa nýjar íbúðir í miðborginni minnkað. Á árinu 2017 var meðalstærð nýrra seldra íbúða í miðborginni um 133 fermetrar. Í ár hafa þær hins vegar verið um 86 fermetrar. Seldar íbúðir eru því minni en áður og að öllu jöfnu ætti það að skila hærra fermetraverði en ella. Það hefur hins vegar ekki gerst í tilviki miðborgarinnar.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi