Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mið-Ísland er bara ofmetið Morfís-lið"

Mynd: Ari Eldjárn / Artist Facebook

„Mið-Ísland er bara ofmetið Morfís-lið"

03.06.2019 - 16:53

Höfundar

Varaforseti Mið-Íslands, Ari Eldjárn, hefur verið einn vinsælasti uppistandari landsins undanfarin 10 ár. En hann hefur komið fram á skemmtunum af öllum stærðum og gerðum, bæði einn sem uppistandari og á hvers kyns viðburðum með félögum sínum í Mið-Íslands-hópnum sem hann kynntist í gegnum Morfís.

Ara Eldjárn tókst að alast upp fyrstu árin á menningarheimili í Vesturbænum án þess að þekkja til íþróttastórveldisins KR. Hann gekk í Landakotsskóla, Hagaskóla og síðan MR þar sem hann fór í ræðuliðið sem var vettvangur sem hentaði honum vel. Ari reyndi alltaf að vera fyndinn í Morfís þrátt fyrir að það skilaði kannski ekki glæstum sigrum. En sigrar voru ekki aðalatriðið í hans huga, það gladdi hann meira að fólk færi að hlæja og svo kynntist hann félögum sínum í Mið-Íslandi í gegnum ræðukeppni.

„Bergur Ebbi sagði einhvern tímann að það væri mjög vel falið leyndarmál að Mið-Ísland væri bara glorified Morfís-lið, og það er það,“ sagði Ari Eldjárn í spjalli við Dodda litla og bætti við: „Við vorum allir í þessari kreðsu og við kepptum allir hver við annan, þjálfuðum allir hver á móti öðrum. Ég þjálfaði Jóa á móti Bergi og Dóra og Bjössa. Svo þjálfuðu Bjössi og Jói saman og Jói þjálfaði á móti mér. Allir hafa unnið alla einhvern veginn.“

Ari fór til Englands í nám en vissi alltaf að hann vildi gera eitthvað skapandi.  Fyrsta giggið var ekki af verri endanum því að hann tók þátt í að skrifa Áramótaskaupið 2006. „Ég fór í handritanám á Englandi og fékk að skrifa skaupið þegar ég var nýkominn heim en það var í gegnum Úlf bróður minn sem samdi um það við samstarfsmann sinn Reyni Lyngdal af því honum fannst að ég þyrfti að fá að spreyta mig á þessu,“ segir Ari. „Þetta var mjög fallegt af honum en við sömdum upp á að vera á hálfum og hálfum hlut en síðan datt út einn handritshöfundur og það var orðið fullmannað.“

Ari kom í spjall til Þórðar Helga í Grínland og ræddi við hann um uppvöxtinn, skólagönguna, ferilinn, Bubba Morthens, Mið-Ísland og margt fleira. Það er hægt að hlusta á spjallið í spilaranum hér fyrir ofan.