Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Microsoft kaupir Nokia

03.09.2013 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Straumhvörf urðu í tæknigeiranum í Evrópu í morgun þegar tilkynnt var að finnska fyrirtækið Nokia hefði selt farsímaframleiðslu sína bandaríska tölvurisanum Microsoft.

Kaupverðið er 5,44 milljarðar evra. Af alls 56.000 starfsmönnum Nokia um heim allan, ganga 32.000 til liðs við Microsoft. Nokia mun hér eftir einbeita sér að netkerfa- og kortatækni í stað farsímaframleiðslu.

Í meira en áratug var Nokia stærsta farsímafyrirtæki heims en hefur undanfarið átt á brattann að sækja. Samkeppnin við Samsung, Apple og fleiri snjallsímaframleiðendur reyndist hörð, sala á Nokia-símum hefur minnkað mikið og hlutabréf í fyrirtækinu hríðfallið undanfarin misseri. Hlutabréf í Nokia hækkuðu um 46 prósent þegar fréttir af kaupunum lágu fyrir í morgun.

Með kaupunum vill Microsoft festa sig almennilega í sessi á farsímamarkaði. Rúm tvö ár eru síðan fyrirtækin tvö hófu samstarf en Nokia-símar nota nú hugbúnað frá Microsoft. Steve Ballmer, framkvæmdastjóri Microsoft, segir að fyrirtækið taki nú stórt skref inn í framtíðina. Kanadamaðurinn Stephen Elop, framkvæmdastjóri Nokia, fer yfir til Microsoft og er sterklega orðaður við framkvæmdastjórastól fyrirtækisins, en Steve Ballmer tilkynnti á dögunum að hann hyggist láta af störfum á næstunni.

Fréttin hefur vakið mikla athygli á heimsvísu en sérstaklega í Finnlandi. Nokia hefur verið langstærsta fyrirtæki landsins um árabil og sigurganga þess á farsímamarkaði Finnum þjóðarstolt. Jyrki Katainen forsætisráðherra segir óvíst nákvæmlega hvaða áhrif salan muni hafa í Finnlandi, en ljóst að miklar og sögulegar breytingar eigi sér nú stað í finnskum iðnaði.