Meyrir kjúklingar og þyrstar tíkur

Mynd: Tjarnarbíó / Tjarnarbíó

Meyrir kjúklingar og þyrstar tíkur

15.01.2020 - 15:24

Höfundar

Sýningin Teenage Songbook of Love and Sex er einlæg, fyndin og vandræðaleg segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi. Þar stígi efnilegt tónlistarfólk á svið en þó vanti punktinn yfir i-ið til að hún fangi til fullnustu möguleikana sem felast í hugmyndinni

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Hvað gerist ef þú safnar saman hóp af unglingum og biður þau um að semja lagatexta um eigin reynslu af kynlífi og ást, og syngja um hana í kór? Þessari spurningu var svarað síðasta fimmtudag í Tjarnarbíói þegar kór unglinga á aldrinum 15-19 ára kom saman og söng fyrir troðfullum sal um það að stunda kynlíf í fyrsta sinn, vera beitt kynferðisofbeldi, festast í eitruðu sambandi, og kynnast hamingjunni sem fylgir því að verða ástfangin í fyrsta sinn. Þetta var sýning troðfull af greddu og vandræðaleika, og þemum sem ættu að vera kunnugleg öllum manneskjum sem eitt sinn voru unglingar.

Teenage Songbook of Love and Sex er samstarfsverkefni Ásrúnar Magnúsdóttur og Alexanders Roberts sem hafa um langt skeið unnið saman. Ásrún hefur gert ýmis sviðsverk með svipuðu móti, til dæmis Listening Party, sem gaf hópi ungmenna rými til að setja saman lagalista og halda nokkurs konar ball á sviði. Teenage Songbook of Love and Sex er að mörgu leyti svipað verkefni, þar sem unglingarnir stíga fram, kynna sig og segja frá lögunum í stuttu máli, en aðalmunurinn felst í því að í þessu verki eru textarnir þeirra eigin smíð. Alexander er einn af listrænum stjórnendum Reykjavík Dance Festival, en verkið var sýnt á þeirri hátíð eins og mörg önnur verka Ásrúnar.

Efnilegt tónlistarfólk

En af hverju var titill verksins á ensku? Á sýningunni eru að vísu nokkur lög á íslensku því þar lét kórinn hjartað ráða för, að eigin sögn, en langstærstur hluti textanna eru á ensku. Ástæða þess verður nokkuð augljós þegar maður áttar sig á því að aðalmarkhópur þessa verks eru ekki íslenskir áhorfendur heldur alþjóðlegar listahátíðir. Meðframleiðendur verksins voru meðal annars BIT Teatergarasjen, the Nordic Residency Platform, NORDBUK og apap – Performing Europe 2020. Með öðrum orðum hafa Alexander og Ásrún verið nokkuð snjöll í að nýta sér norrænan og evrópskan fjárhagsstuðning til að skapa verk sem hefur ferðast alþjóðlega, og mun eflaust ferðast meira milli alþjóðlegra hátíða því þetta er söluvænlegt konsept fyrir slíkar hátíðir.

Hvað sem því líður þá á verkið erindi við samfélagið sem það var skapað í. Textarnir sem kórinn hefur samið eru margir nokkuð fyndnir, sumir vandræðalegir, aðrir hjartnæmir og eftir því sem ég kemst næst, alltaf einlægir og alltaf sóttir í persónulega reynslu. Sum þessara ungmenna eru greinilega nokkuð efnilegt tónlistafólk, með góða söngrödd og ágætis tök á meira en einu hljóðfæri.

Sem dæmi um eina reynslusögu sem fær að flakka er saga ungrar konu sem lýsir því þegar hún svaf hjá eldri konu, með grásprengt hár, sem hún hitti í partýi og laug til um aldur sinn. „You were the one with grey streek in your hair, you were classy, I was young, tender live chicken.“ Eða: „Þú varst sú með gráa rönd í hári, þú varst flott, ég var meyrt unglamb.“

Önnur eftirminnileg reynslusaga lýsir erfiðu sambandi, þar sem ung kona lýsir því að hún sé þreytt á að vera kynlífsdúkka, þerapisti og móðir karlmanns sem rígheldur í hana.

Sum lög voru fyndin, til dæmis það sem var tileinkað þyrstu tíkinni sem býr innra með okkur öllum. Það og fjölmörg önnur lög minntu mig á köflum á lagasmíðar úr South Park-þáttunum og sumir frasar voru það klikkaðir að ég hugsaði með mér: Þetta skáldar enginn, þetta hlýtur að vera ekta SMS.

Góð hugmynd sem mætti krydda meira

Persónulega náði ég að tengja við margar reynslusögurnar, bæði hamingjuna, vandræðalegheitin og litlu harmleikina sem fylgja því þegar unglingar verða ástfangnir og missa áhugann hvort á öðru. Lögin, sem tónlistarstjórinn Teitur Magnússon á eflaust einhvern heiður af ásamt kórfélögum og kórstjórunum Sigríði Soffíu Hafliðadóttur og Aroni Steini Ásbjarnarsyni, voru grípandi og einföld en það hefði mátt krydda þau með meiri röddunum. Möguleikarnir sem felast í því að hafa kór með breitt raddsvið voru því miður ekki nýttir til fulls.

Í verkinu er lágstemmd kóreógrafía sem er bæði skondin og ágætlega útfærð. Ásrún og Alexander eiga hrós skilið fyrir hvað þau fengu út úr hópnum, og það eiga unglingarnir líka fyrir að hafa opnað sig svona og náð að skila af sér jafn heilsteyptu listaverki.

Þó ég vilji ekki ganga svo langt að segja verkið óklárað, þá fannst mér stundum vanta punktinn yfir i-ið. Kannski þyrfti að semja tvö lög til viðbótar og sleppa einu eða tveimur lögum til að fanga til fullnustu möguleikana sem felast í hugmyndinni. Ég vona að verkið nái að halda áfram að þróast, að meiri dýpt komi í það og að útfærslurnar á sönglögunum verði aðeins flóknari.

Verkið ætti að höfða til breiðs hóps fólks, ekki bara ungmenna sem þó munu eflaust sérstaklega tengja við efnivið söngleiksins, og ekki ólíklegt að hver sýning sé síbreytileg, sér í lagi þegar þau sýna á mismunandi hátíðum í ólíkum löndum.

Tengdar fréttir

Myndlist

Sálumessa plasts og sundbolti

Leiklist

Tekur ekki persónurnar með sér á koddann

Myndlist

Listin skapar framtíðina

Leiklist

Vill vera ótrúlega heit og svolítið leiðinleg