Mexíkó hótar lögsókn vegna skotárásar í Texas

05.08.2019 - 03:55
Mynd með færslu
Marcelo Ebrard utanríkisráðherra Mexíkó. Mynd: Flickr
Utanríkisráðherra Mexíkó segir forseta landsins hafa falið sér að tryggja hröð og ákveðin viðbrögð yfirvalda við skotárásinni í El Paso í Texas í gær. Í það minnsta þrír þeirra sem féllu og níu sem særðust voru mexíkóskir ríkisborgarar.

Marcelo Ebrard utanríkisráðherra birti myndskeið á Twitter þar sem hann lofaði hörðum viðbrögðum stjórnvalda í Mexíkóborg og lýsti árásinni sem villimannslegri.

Í myndskeiðinu segir ráðherrann að forsetinn, Andrés Manuel López Obrador, hafi skipað sér að grípa til aðgerða gegn stjórnvöldum í Washington til að tryggja öryggi mexíkóskra ríkisborgara norðan landamæranna. Meðal þess sem stjórnvöld hafa í hyggju er að ákæra árásarmanninn fyrir mexíkóskum dómstólum og hugsanlega að sækja bandarísk stjórnvöld til saka fyrir að tryggja ekki öryggi mexíkóskra ríkisborgara.

El Paso, 22. stærsta borg Bandaríkjanna, er við landamærin að Mexíkó og meirihluti íbúa er af rómönsku bergi brotinn.

Samkvæmt lögreglu virðist árásarmaðurinn, hinn 21 árs gamli Patrick Crusius, hafa viljað myrða fólk af rómönskum uppruna og er árásin rannsökuð sem hatursglæpur.

Hann hefur verið ákærður fyrir morð af ásetningi og á yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann fundinn sekur.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi