Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mexíkó handtekur ekki flóttafólk við landamæri

25.06.2019 - 16:20
epa07592393 President of Mexico, Andres Manuel Lopez Obrador, speaks during a press conference at the National Palace in Mexico City, Mexico, 22 May 2019. Obrador announced that Undersecretary of the Interior Zoe Robledo will replace German Martinez Cazares as Director of the Mexican Institute of Social Security (IMSS).  EPA-EFE/Mario Guzmán
Andrés Manuel Lopez Obrador forseti. Mynd: EPA-EFE - EFE
Forseti Mexíkó segir að þjóðvarðliðar sem sendir voru að landamærunum að Bandaríkjunum hafi ekki fengið skipanir um að handtaka fólk sem freistar þess að fara ólöglega yfir þau.

Þetta sagði Andres Manuel Lopez Obrador forseti á fundi með blaðamönnum í dag. Fyrir skömmu voru 15 þúsund mexíkóskir þjóðvarliðar sendir að landamærunum.

Þetta gengur þvert á orð varnarmálaráðherra hans, Luis Cresencio Sandoval, sem sagði þjóðvarðliða hafa heimild til að hneppa þá sem reyndu að fara ólöglega yfir landamærin í varðhald.

Obrador sagði þjóðvarðliðana ekki hafa fengið skipanir um að handtaka flóttafólk. Slíkt væri í verkahring innflytjendaeftirlitsins.

AFP birti myndir af því þegar tvær konur og ung stúlka voru handteknar af þjóðvarðliðum við bakka Rio Grande-árinnar sem markar stóran hluta landamæranna að Bandaríkjunum.

Handtökurnar vöktu mikla reiði í Mexíkó en stjórnvöld þar hafa verið undir miklum þrýstingi frá Bandaríkjunum um að hindra för flóttafólks yfir landamærin. Donald Trump Bandaríkjaforseti boðaði fyrir skömmu háa refsitolla á mexíkóskar vörur ef þarlend yfirvöld gripu ekki til aðgerða til að hindra komu flóttafólks yfir landamærin en hætti við eftir að samningar tókust milli landanna, sem meðal annars fólu í sér að þjóðvarðliðar voru sendir að landamærunum.