Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Metri fyrir hvert barn sem beitt er ofbeldi

20.08.2019 - 15:04
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
UNICEF á Íslandi og Einar Hansberg Árnason eru nú hálfnuð með hringferð sína um landið til að vekja athygli á þeim fjölda barna sem verða fyrir ofbeldi á Íslandi.

Í vor hóf UNICEF á Íslandi átak gegn ofbeldi á börnum undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn. Ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi og rúmlega 13 þúsund börn verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn hér á landi. Þetta kemur fram í nýjum gögnum um ofbeldi gegn börnum á Íslandi sem voru unnin af Rannsóknum og greiningu og Stígamótum. Í tölunum er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti.

Áætlað er að stoppa í 36 bæjarfélögum þar sem Einar mun róa, skíða eða hjóla 13 þúsund metra í sérstökum vélum á hverjum stað, einn fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi. Markmiði er að vekja almenning til vitundar um ofbeldið og einnig hvetja sveitarfélög til að koma sér upp samræmdum viðbrögðum. Þá er undirskriftum safnað og ætlar UNICEF að senda öllum sem skrifa undir upplýsingar um hvernig eigi að bregðast við þegar grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi. Í dag höfðu um 11 þúsund manns skrifað undir flestir á vefnum á https://feluleikur.unicef.is

Rúnar Snær Reynisson fréttamaður hitti Sigrúnu Buithy Jónsdóttur frá UNICEF og Einar Hansberg Árnason á Egilsstöðum í dag en sjá má viðtalið í spilaranum hér að ofan. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV