Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Metoo-byltingin er langhlaup og rétt að byrja

23.09.2018 - 12:20
Sylvía Kristín Ólafsdóttir, verkfræðingur. - Mynd: RÚV / RÚV
Ef til vill eru þær kröfur gerðar til kvenna í karlageirum að þær fylgi þeim karllægu gildum er ríkt hafa, að sögn Sylvíu Kristínar Ólafsdóttur, verkfræðings, sem starfað hefur innan orkugeirans, þar sem karlar hafa verið í meirihluta. Þær breytingar hafa þó orðið eftir metoo-byltinguna að konur í stjórnendastöðum geta nú leyft sér að hafa kvenleg gildi. Rætt var við hana, Auði Jónsdóttur rithöfund og þingmennina Guðmund Andra Thorsson og Kolbein Óttarsson Proppé í Silfrinu í dag.

Orkuveitan og dótturfyrirtæki hennar Orka náttúrunnar voru áberandi í fréttum í síðustu viku eftir að konu, sem kvartaði undan óviðeigandi framkomu framkvæmdastjóra ON, var vikið frá störfum. Eftir að málið komst í hámæli var framkvæmdastjórinn látinn fara og forstjóri Orkuveitunnar hefur tímabundið stigið til hliðar. „Ég hugsa að þetta sé í öllum geirum. Í karlageira er kannski gerð meiri krafa um það að konur fari í sama mót og fylgi þessum karllægu gildum. Það sem er gott við metoo er að stjórnendur mega sýna kvenlegri gildi. Ég held að orkugeirinn sé ekki saklaus,“ sagði Sylvía.

Fréttirnar af samskiptum innan Orkuveitunnar vekja upp þær spurningar hvort að ekki sé skilningur þar á metoo-byltingunni sem hófst síðasta haust, að mati Auðar. Hún bendir á að talað sé um alls kyns jafnréttisvottanir en að eitt sé í orði og annað á borði. Staðan innan Orkuveitunnar sýni skringilega grunnhyggni, miðað við umræðuna í samfélaginu í kjölfar metoo-byltingarinnar. 

Ástæða er til að málið innan Orkuveitunnar verði skoðað vel og Sylvía fagnar umræðunni. Metoo-byltingin sé langhlaup og rétt að byrja. Það sé eðlilegt framhald að fólk taki afleiðingum gjörða sinna, líkt og raunin var í máli framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar.

Kolbeinn tók undir að afleiðingar málsins hjá Orku náttúrunnar sé skref í rétta átt, en þó ekki atburðurinn sjálfur. Konan sem kvartaði yfir framkomu framkvæmdastjórans hafi sýnt mikið hugrekki og málið hafi haft afleiðingar. „Sem það hefði eflaust ekki gert fyrir nokkrum árum síðan.“ Guðmundur Andri segir athyglisvert að framkvæmdastjórinn hafi ekki verið látinn fara fyrr en eiginmaður konunnar, sem sé þjóðþekktur, hafi skrifað um málið á Facebook-síðu sína. „Þá verður allt vitlaust. Karlmaður þarf að stíga fram og útkljá málið á vettvangi karla og það er svolítið sláandi,“ sagði Guðmundur. Það hafi engu að síður verið farsæl lok að framkvæmdastjóranum hafi verið vikið frá störfum.