Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Metlosun brennisteinstvíildis í Holuhraunsgosi

22.01.2018 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Meira af brennisteinstvíildi kom upp í gosinu í Holuhrauni en í nokkru öðru hraungosi í heiminum í fjörtíu ár eða frá því að gervitunglamælingar hófust. árið 1978. Sextán sinnum meira kom upp af breinnisteinstvíildi en við losun af mannavöldum og tvisvar sinnum meira af koltvísýringi.

Þetta kemur fram í nýrri vísindarannsókn sem fjallað er um í tímaritinu Geoscience. Melissa Pfeffer eldfjallafræðingur á Veðurstofu Íslands fór fyrir rannsókninni, en þátttakendur voru frá sextán rannsóknarstofnunum í ýmsum löndum.

Fram kemur að 9,6 milljónir tonna af brennisteinstvíildi hafi losnað í gosinu og 5,1 milljón tonna af koltvísýringi.  Tiltölulega lítið af flúor og klór mældist í gösum frá Holuhraunsgosinu sem liklega minnkaði umhverfisáhrif gossins, en flúor er eitrað efni sem hefur oft valdið tjóni á sauðfé í eldgosum á Íslandi, svo sem í Skaftáreldum 1783-1784 og Heklugosinu 1947-1948. Á vef Veðurstofu Íslands segir að upplýsingar sem þessi rannsókn safnaði séu mikilvægar til að meta umhverfis- og heilsuáhrif af eldvirkni. 

Í rannsókninni er mælt með því að fjölbreyttar aðferðir séu notaðar til að mæla gosský og að frekari aðferðir verði þróaðar til að bæta eftirlit með gosskýjum á Íslandi og á öðrum stöðum þar sem skilyrði eru erfið, bæði vegna vetrartíma þegar sólarljós er takmarkað og vegna mikils magns svifryks, en þetta hefur neikvæð áhrif á söfnun gagna.

Fram kemur í rannsókninni að lofttegundir sem mældust við yfirborð bárust með vindi og höfð áhrf á fólk jafnvel í tuga kílómetra fjalægð, en endurspegluðu ekki alltaf aðstæður við gosstöðvarnar.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV