Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Meti áhrif hvalveiða á samskiptin við BNA

14.10.2015 - 07:21
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Níu þingmenn allra stjórnarandstöðuflokka hafa óskað eftir skýrslu frá Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, um áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og annarra ríkja. Þar komi meðal annars fram hvort þær hafi orðið til þess að enginn bandarískur ráðherra hafi heimsótt landið síðan 2008.

Beiðnin var lögð fram á Alþingi í gær og er í sex liðum. Þar er lögð mikil áhersla á að utanríkisráðherra greini frá því hvaða áhrif hvalveiðarnar hafi haft á samskipti Íslands og Bandaríkjanna. 

Bandarísk stjórnvöld buðu Íslendingum ekki á stóra hafráðstefnu á síðasta ári vegna hvalveiða. Það sama ár fól Barack Obama, Bandaríkjaforseti, embættismönnum sínum að kanna hvort viðeigandi væri að þeir heimsóttu Ísland vegna hvalveiðanna. Gunnar Bragi hefur sagt að hvalveiðarnar hafi staðið í vegi fyrir ýmsu í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.   

Alls veiddust 184 hvalir við Ísland árið 2015 - 155 langreyðar og 29 hrefnur. Langreyðarkvótinn var 154 dýr, hrefnukvótinn 275 dýr.  
(RÚV - fréttir)

Í beiðninni  er óskað eftir að ráðherra skýri frá því hver hafi verið áhrif ákvarðana forseta Bandaríkjanna um að beita Ísland diplómatískum refsiaðgerðum í atvinnuskyni. Og hvort hvalveiðarnar hafi haft áhrif á sölu og markaðssetningu íslenskra gæðamatvæla í verslunum eins og Whole Foods Market.

Í beiðni þingmannanna er enn fremur sérstaklega óskað eftir upplýsingum hvort hvalveiðarnar séu ástæðan fyrir því að bandarískir ráðherrar hafi ekki heimsótt landið síðan 2008 þegar Condoleeza Rice kom hingað.

Þeir spyrja sömuleiðis hvort veiðarnar hafi skaðað „diplómatísk samskipti Íslands og Bandaríkjanna, og ef svo er, hvort efnahagslegt mikilvægi veiðanna réttlæti fram­hald þeirra.“