Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Methagnaður Alcoa sést ekki

28.05.2014 - 21:46
Mynd með færslu
 Mynd: Fjarðaál
Það eru vísbendingar um að gat í skattalöggjöfinni hér kosti ríkissjóð milljarða á ári að sögn formanns efnahags og viðskiptanefndar sem hefur lagt til að lögum verði breytt.

Lítið mál er fyrir fyrirtæki að koma sér hjá skattgreiðslum með lánveitingum frá lágskattasvæðum. Það að Alcoa samsteypan segi starfsemi sína á Íslandi eina þá arðbærustu í heiminum á meðan botnlaust tap blasir við í reikningum þess hér, lýsir siðlausri bókhaldsbrellu að mati þingmanns. Talsmenn Alcoa segja fyrirtækið starfa í fullu samræmi við lög og reglur og þann samning sem sé í gildi við íslensk stjórnvöld. Hár fjármagnskostnaður starfseminnar hér sé ástæða þess að hagnaður af rekstri álversins á Reyðarfirði, snúist í tap. Sá fjármagnskostnaður er þó allur vegna lána sem móðurfélag Alcoa lánar hingað í gegnum Lúxemborg.

„Ég held að þetta sé þarft úrbótamál. Það er útlit fyrir að skattgreiðslur fyrirtækja séu ekki alltaf í samræmi við raunhagnað þeirra. Það er hugsanlegt að ríkissjóður sé að fara á mis við milljarða af þessum sökum. Þetta skekkir óhjákæmilega samkeppnisstöðu fyrirtækja sem keppi við þau fyrirtæki hér á landi,“ sagði Frosti Sigurjónsson formaður efnahags og viðskiptanefndar í Kastljósi í kvöld. 

Lán í gegnum lágskattasvæði

Efnahags og skattanefnd Alþingis hefur nú ákveðið að fela fjármálaráðuneytinu að undirbúa breytingu á lögum sem koma mun í veg fyrir að fyrirtæki geti með háum lántökum við tengd fyrirtæki erlendis, komist hjá því að greiða skatta. Tillaga þingmanna Vinstri grænna um málið var lögð fram í haust og um hana hefur nú myndast samstaða í nefndinni. Tilllagan kom fram í kjölfar umræðu um að hugsanleg glufa í lögum gæti hafa reysnt ríkissjóði dýrkeypt. Í Kastljósi fyrir ári var fjallað um áhrifin af henni. Alcoa sem fjármagnað var með háum lánum systurfélags síns í Lúxemborg og Norðurál í gegnum Hollenskt systurfélag sitt. Sýnt var fram á að Norðurál hefði lækkað skattgreiðslur sínar með slíkum lánum sem báru háu vexti, þó fyrirtækið hafi vissulega greitt tekjuskatt undanfarin ár. Alcoa hafði hins vegar sýnt samfellt tap og greiddi því engan tekjuskatt hér. Eitt stærsta fyrirtæki landsins réð því þannig sjálft hvort það greiddi yfirleitt tekjuskatt hér á landi. Slíkt væri óhugsandi í velflestum löndum beggja vegna atlantshafsins.

Indriði Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri og aðstoðarmaður fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn átti þátt í vinnu frumvarpsins sem lagt var fram í haust. Hann segir blasa við að verið sé að notfæra sér þessa leið hér á landi. „Það vekur auðvitað spurningar þegar þessi lán eru jafnvel hærri en eignir fyrirtækjanna hér," sagði Indriði.

Talsmenn Alcoa hér á landi vildu ekki tjá sig um málið fyrir ári en vísuðu til þess að félagið hefði á þriggja ára tímabili greitt fyrirframgreiddan tekjuskatt uppá tæpan milljarð króna, samkvæmt samkomulagi stóriðjufyrirtækja við stjórnvöld eftir hrun. Þann milljarð mun fyrirtækið þó geta fengið að fullu til baka, þar sem hann nýtist á móti skatti næstu þriggja ára. Þeir vísuðu einnig til þes að félagið færi í einu og öllu að lögum og samningum og ekkert væri athugavert við að félagið greiddi ekki skatt á meðan það greiddi niður fjárfestingu sína.

Tugir milljarða til Lúxemborgar

Bandaríska fyrirtækið Alcoa á og rekur álverið við Reyðarfjörð. Eignarhaldið er þó í gegnum þrjú félög hérlendis. Alcoa Fjarðaál sf er rekstrarfélag verksmiðjunnar. Eignarhald á því skiptist svo milli tveggja félaga. Alcoa á Íslandi ehf á 99% í rekstrarfélaginu og Reyðarál ehf 1%. Bæði eru þau svo undir sömu stjórn og í eigu eins og sama félagsins, hins Lúxemborgska Alcoa Luxembourg. Eigandi þess félags er svo Alcoa international Holdings í Delaware í Bandaríkjunum sem á endanum er í eigu Alcoa Inc í Pittsburgh í Bandaríkjunum.

Starfsemin á Íslandi er fjármögnuð með lánum frá enn öðru félagi, sem einnig er staðsett í Lúxemborg. Það er félagið Alcoa Global treasury. Rekstrarfélagið álversins Alcoa Fjarðaál skuldar því lúxemborgska um 45 milljarða króna og greiðir 1,3 milljarða á ári í vexti af því. Íslenska móðurfélagið Alcoa á Íslandi skuldar því lúxemborgska hins vegar 210 milljarða króna. Það sem er um 20 milljörðum umfram eignir Alcoa Ísland ehf á Íslandi. Eigið fé Alcoa Ísland er því neikvætt enda hefur það verið rekið með miklu tapi undanfarin ár. Ástæðan er fyrst og fremst vaxtakostnaður. Alcoa Ísland ehf hefur á undanförnum 6 árum greitt næstum 50 milljarða króna í vexti til Lúxemborgska félagsins. Þrátt fyrir það hefur skuldastaða þess lítið sem ekkert lækkað á þessum tíma. Vextir á þessu láni eru breytilegir, en fóru hæst í 14 milljarða króna, að núvirði, árið 2008. Milli áranna 2011 og 2012 hækkuðu vextirnir um meira en helming. Í ársreikningi Alcoa Ísland segir um þessi lán:

„Fjármögnunarsamningar við Alcoa global treasury eru endurnýjaðir árlega. Dagsetning endurgreiðslu er ekki í sjáanlegri framtíð.“

Arðbærust á heimsvísu

Heildarskuldir starfsemi Alcoa hér, við fyrirtæki Alcoa í Lúxemborg eru um 240 milljarðar króna.Vaxtabyrði af þeim hefur orðið til að skerða hagnað hér um tugi milljarða á undanförnum árum. Starfsemin hér á landi sýnir því samfellt tap.

Móðurfélagið Alcoa í Bandaríkjun sér þetta þó ekki svona. Í ársreikningi Alcoa samstæðunnar árið 2012 er starfseminni hér hampað vegna mikils og jafnvel methagnaðar í samanburði við á þriðja tug annarra álvera Alcoa:

„Álbræðslan Fjarðaál á Íslandi er ein af arðbærari bræðslum í Norður-Evrópu í málmblendieignasafni Alcoa.“

Á öðrum stað í skýrslunni segir svo;

„Ódýr orka og tækniframfarir hafa leitt til þess að bræðslur okkar í Noregi og á Íslandi eru þær arðbærustu í aðalstarfsemi okkar á heimsvísu.“

Þessi hagnaður hefur þó enn ekki komið fram í reikningum félagsins hér og fyrirtækið því ekki greitt skatt af honum.

Siðlaust og skammlaust

„Það má vel vera að móðurfélaginu takist að ná til sín hagnaði sem ekki birtist hér. Það eru ýmsar leiðir til þess,“ sagði Indriði sem sagðist ekki sjá annað en að megintilefnið væri þá að koma sér hjá því að greiða hér skatta. Guðmundur Steingrímsson þingmaður og nefndarmaður í Efnahags og viðskiptanefnd sagði aðferðir sem þessar siðlausar og skammlausar. Allt benti til þess að verið væri að flytja arð af auðlindum landsmanna með bókhaldsbrellum úr landi. Slíkt væri áfellisdómur yfir því hvernig staðið hefði verið að samningum og lagasetningu hér á landi. Við því þyrfti nú að bregðast.

Alcoa er eitt stærsta fyrirtæki landsins og veltir 90 milljörðum króna á ári. Í yfirliti ríkisskattstjóra yfir greiðendur opinberra gjalda; tekjuskatt, tryggingagjald og fjármagnstekjuskatt, er Alcoa í 34. Sæti yfir fyrirtæki landsins árið 2013. Það ár greiddi fyrirtækið 373 milljónir í opinber gjöld. Athygli vekur að tvö mun minni fyrirtæki í sama sveitarfélagi greiddu mun meira í sömu gjöld það ár. Eskja og Síldarvinnslan greiddu þannig tvöfalt og sexfalt meira það ár.

Alcoa stolt af framlagi sínu

Í umfjöllun Kastljóss fyrir ári kom fram að auk margskonar ívilnana sem fyrirtækjunum voru tryggð með sérsamningum við íslensk stjórnvöld, hafði einnig verið sett inn ákvæði í samninga Alcoa sem áttu að undanskilja fyrirtækið frá fyrirhugaðri lagabreytingu. Formaður Efnahags og skattanefndar og fulltrúi minnihlutans virðast þó vilja láta reyna á það. Í Kastljósi sagðist Frosti Sigurjónsson formaður nefndarinnar ekki hafa skoðað samninga Alcoa og ríkisins sérstaklega. Hann sagðist hins vegar efast um að fyrirtækið yrði undanþegið því ef almenn löggjöf yrði sett á öll fyrirtæki í landinu.

Í svari Alcoa til Kastljóss í kvöld leggur fyrirtækið áherslu á að það starfi að fullu eftir lögum og samningum þess við íslensk stjórnvöld og sé stolt af framlagi sínu til íslensks samfélags; meðal annars greiðslu skatta og opinberra gjalda. Þar segir ennfremur að fyrirtækið hafi lækkað skuldir og fjárfest fyrir samtals 30 milljarða á undanförnum árum. Spurningu Kastljóss um misræmi í fullyrðingum í ársskýrslu Alcoa samstæðunnar um að starfstöðin hér á landi sé ein sú arðbærasta af á þriðja tug starfstöðva, þótt þess sjáist ekki merki í reikningum félagsins hér, var svarað þannig að vissulega væri rekstur hér góður og hagkvæmur. Hár fjárfestingakostnaður fyrirtækisins, sem eins og áður segir er vegna lána frá eiganda þess í gegnum Lúxemborg, væri þess þó valdandi að tap væri á rekstrinum. Svari Alcoa fylgdi eftirfarandi yfirlýsing fyrirtækisins.

„Alcoa á Íslandi er stolt af því framlagi sem fyrirtækið hefur veitt til íslensks samfélags í gegnum gjaldeyristekjur, greiðslu skatta og opinberra gjalda, með sköpun starfa og stuðningi við austfirskt samfélag. Frá því að álframleiðsla hófst árið 2007 hefur fyrirtækið varið rúmum 13 milljörðum króna til fjárfestinga vegna starfseminnar. Þá er Farðaál stærsti atvinnuveitandinn á Austurlandi og sér ásamt verktökum yfir 900 manns fyrir vel launuðum störfum. Við höfum ávalt starfað í fullu samræmi við fjárfestingarsamning okkar við íslenska ríkið og þá eru skatta- og skuldamál fyrirtækisins í fullu samræmi við alþjóðleg lög og reglugerðir. Enn fremur eru ársreikningar fyrirtækisins opnir og aðgengilegir.“