Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Metfjöldi refa í æðarvarpi í Dýrafirði

28.06.2016 - 20:48
Innlent · Dýr · Dýralíf · Náttúra
Æðarbóndi í Dýrafirði segir að aldrei hafa verið jafnmikið af tófu og nú. Hann telur vanveiði vera orsök fjöldans en spendýravistfræðingur segir engin gögn styðja það að veiðar stýri stofnstærð og að fjöldinn ráðist frekar af góðri tíð.

Æðarvarpið er lykilhluti af búskap víða á Vestfjörðum. Á Hólum í Dýrafirði skilar æðarvarp búinu á við hundrað fjár. Þar hafa bændur staðið í ströngu undanfarinn mánuð. 

Friðbert Kristjánsson er bóndi á Hólum: „Það hefur gengið ágætlega en það er ásókn á Tófu. Það er búið drepa núna, sem ég veit um, 24 frá því um 10. maí. Ætli það séu ekki um tíu meira en í venjulegu ári.“  

Hvaða áhrif  hefur þetta á varpið hjá þér?

„Þetta er bara óhemjuvinna að vakta og mikil vinna með sauðburðinum. Ef tófan kemur inn og fær frið í smá tíma þá er hún búin að rústa stórum kafla. Hún fer í hreiðrin og grefur eggin.“

Ertu með skýringu á þessum mikla fjölda?

„Bara vanveiði. Ósköp einfalt,“ segir Friðbert.

Tófustofninn hefur tífaldast frá árinu 1980, þegar hann var í miklu lágmarki. Ester Rut Unnsteinsdóttir er „Eftir því sem að stofninn stækkar er veitt meira. Þótt það sé ekki veitt meira hlutfall þá virðist það vera svipað hlutfall sem er veitt. Við getum ekki séð það með neinum tölum, það eru engin gögn sem styðja það að veiðar stýri stofnstærð.“

Ester segir að meðal villtra dýra verði mest afföll fyrsta árið. en síðastliðinn vetur og vor hefur veður verið milt á Vestfjörðum. „Það er alveg klárt að það er bætt tíð og betri fæðuskilyrði sem hafa gert dýrunum kleift að fjölga sér, bæði sumar og vetur. Ef það er meira núna. Þá gæti það alveg bent til þess að það hafi verið góður vetur og fleiri dýr lifað af.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður