Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Metfjöldi erlendra ferðamanna um jól

25.12.2015 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn heimsótt Ísland yfir jólahátíðina og nú. Talið er að þeir séu um ellefu þúsund talsins. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia lentu 25 flugvélar með ferðamenn á Keflavíkurflugvelli í gær, miðað við þrettán flugvélar á sama degi í fyrra.

Þúsundir ferðamanna fóru í dags- og hvalaskoðunarferðir í dag og mikill fjöldi er á leið í svokallaðar Norðurljósaferðir í dag.

„Það má segja að það sé í rauninni bara venjulegur dagur hjá okkur í ferðaþjónustunni í dag,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við fréttastofu. „Það er af sem áður var fyrir kannski tíu árum, þá var ekki opið alls staðar en í dag má segja að fyrirtæki í ferðaþjónustu séu að upplifa vænlegan dag, því það er opið á mörgum stöðum.“

Skapti segir sprengingu í komum ferðamanna til landsins yfir jólahátíðina í takt við umferðina til landsins yfir árið. Ísland sé komið á kortið.

„Við höfum verið að sjá mikinn vöxt yfir vetrartímann og kannski má segja að Ísland um jól sé ný markaðsvara. Landið okkar skartar líka sínu fegursta í dag, það er gott veður um allt land og svo má geta þess að höfuðborgin okkar Reykjavík er eina höfuðborgin í Evrópu sem er hvít í ár, þannig að það er bónus fyrir ferðamennina okkar,“ segir Skapti.

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV