Metdæling úr Landeyjahöfn í ár

04.12.2015 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Á þessu ári hefur verið dælt um 750 þúsund rúmmetrum af sandi af hafsbotni í og við Landeyjahöfn fyrir um 520 milljónir króna. Það er meira en helmingi meira en dælt hefur verið á einu ári áður, síðan höfnin var tekin í notkun árið 2010.

Frá 2010 hefur verið dælt frá 220 þúsund upp í 320 þúsund rúmmetra af sandi á ári svo Herjólfur geti siglt í og úr höfninni. „Þetta er miklu meira í ár, enda höfum við látið dæla miklu meira fyrir utan höfnina núna. Það má segja að helmingur af sanddælingunni í ár sé fyrirbyggjandi og nýtist okkur til lengri tíma“, segir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri Siglingasviðs Vegagerðarinnar. Stórt öflugt sanddæluskip frá belgíska fyrirtækinu Jan De Nul hefur dælt fyrir utan höfnina frá í ágúst. Belgíska fyrirtækið átti lægsta tilboð í dýpkun Landeyjahafnar næstu þrjú ár. Það tekur svo við dýpkun innan og utan hafnarinnar í febrúar.

Landeyjahöfn er engu að síður lokuð um sinn og útlit fyrir að svo verði í allan vetur. Dýpi í höfninni er nú um 4 metrar, en að minnsta kosti 6 metra dýpi þarf svo Herjólfur komist inn. Þá eru veður og vindáttir óhagstæð um þessar mundir. Sigurður Áss segir að höfnin verði engu að síður opnuð í vetur, liggi fyrir spá um stillu eða norðanátt í viku eða meira. Um þrjá daga taki að hreinsa höfnina.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi