Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Metan streymir upp

21.06.2013 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Bráðnun veldur því að öflugasta gróðurhúsalofttegundin sem geymst um milljónir ára í sífrera streymir út í andrúmsloftið. Er martröð loftslagsvísindanna að rætast?

Vísindamenn í sameiginlegum rannsóknarleiðangri Rússa og Bandaríkjamanna í Íshafinu norður af Austur-Síberíu urðu þess nýlega áskynja að metan streymir í upp af sjávarbotninum þar til yfirborðs og upp í andrúmsloftið í svo miklum mæli að menn hafa aldrei orðið vitni að slíku. Leiðangursstjórinn, Igor Semiletov, segir að vísindamenn hafi fylgst með sjávarbotninum á þessum slóðum árlega í tuttugu ár, og orðið áður varir við uppstreymi metans en nú sé eitthvað áður óþekkt að gerast. Metanið streymir upp líkt og um væri að ræða gíga um kílómetra í þvermál. Leiðangurinn kannaði hundrað og fimmtán mælistöðvar á um tíu þúsund fermílnasvæði og uppgötvuðu uppstreymi hvarvetna. Igor Semiletov áætlar að þéttleiki lofttegundarinnar sé um hundrað sinnum meiri en áður hafi mælst.

Þessi uppgötvun kann að benda til að versta martröð þeirra sem fást við loftslagsrannsóknir og reyna að spá fyrir um líklega hlýnun næstu áratugi eða út þessa öld sé að rætast. Losun metans í andrúmsloft aðallega frá landbúnaði hefur aukist stöðugt frá iðnbyltingu. Á hinn bóginn er sífreri norður Rússlands og Síberíu og hafsbotninn þar norðan af eins konar metangeymir. Gríðarlegt magn af metani hefur verið bundið þar í milljónir ára. Nú bendir ýmislegt til þess að bráðnun vegna hlýnunar andrúmslofts sé að leiða til þess að metanið sleppi út í andsrúmsloftið, geymurinn eða geymarnir tæmist. Það sem gerir þá framvindu svo háskalega er að metan er sterkasta gróðurhúsalofttegund sem til er.

Talið er að hvert tonn metans hafi tuttuguföld áhrif til hlýnunar á hundrað árum en hvert tonn koltvíoxíð. Sumir loftslagsvísindamenn hafa haldið því fram að ná lhýnun því stigi að sífrerinn bráðni og metanið sleppi út sé stríðið við loftslagsbreytingar tapað. Þá losni úr læðingi öfl sem ekki verði við ráðið. Uppgötvun rússnesk-bandaríska leiðangursins sem fyrst var greint frá í gær hefur því vakið mikla athygli. Natalia Shakova sem starfar við háskólann í Fairbanks í Alaska segir þó að enginn geti sagt fyrir í dag hvaða tíma það gæti tekið sífrerann að bráðna með þeim hætti að það valdi háska. Hugsanlega gæti það gerst á næstu áratugum segir hún, en enginn getur í dag kveðið úr um það með það nokkurri nákvæmni. Halldór Björnsson sérfræðingur hjá veðurstofu Íslands segir dæmi um það í jarðsögunni, eða fyrir um 50 milljónum ára að mikið streymi metans hafi valdið margra stiga hlýnun á jörðinni á tiltölulega stuttum tíma.