Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meta hvaða leið skuli fara með Blöndulínu 3

09.03.2020 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Hjá Landsneti er nú unnið að því að meta hvaða leið skuli fara við lagningu Blöndulínu 3, nýrrar háspennulínu frá Blöndu til Akureyrar. Þessi vinna fylgir nýju mati á umhverfisáhrifum þar sem haft er samráð við landeigendur og fleiri sem eiga hagsmuna að gæta.

Vorið 2017 ákvað Landsnet að taka Blöndulínu 3 af þriggja ára framkvæmdaáætlun og hefja um leið mat á umhverfisáhrifum. Þar er skylda að meta mögulegar leiðir fyrir línuna áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Vinnan á byrjunarstigi

Síðustu vikur hefur Landsnet haldið kynningar- og vinnufundi til að ræða og meta hvar línan muni liggja. „Það sem við erum að leggja fram er það sem hefur verið sett inn á skipulag hjá sveitarfélögunum og gamli aðalvalkosturinn líka. Og þetta er í raun bara á byrjunarstigi þannig að vitum ekki hvort við förum aðra leið en við gerðum,“ segir Hlín Benediktsdóttir, yfirmaður undirbúnings framkvæmda.

Mikilvægar upplýsingar frá heimamönnum

Á þeim fundum sem búnir eru segir hún mikilvægar upplýsingar hafa komið fram frá landeigendum, íbúum og fleirum. „Hvað þeim finnst gott og slæmt og líka að benda okkur á hluti sem við vissum ekki af. Við búum ekki á þessum stöðum og erum ekki með sömu hagsmuni og þau.“   

Mikilvægt að geta rannsakað í sumar

En það sé ómögulegt að segja hvenær þessarri vinnu líkur. Hugsanlega eftir ár. Fyrstu tillögu af matsáætlun verði skilað til Skipulagsstofnunar um páska. „Það skiptir máli fyrir okkur núna að halda svolítið vel á spöðunum til að geta náð sumrinu í rannsóknir. Þannig að við vinnum bara hratt að þessu. Og hratt og vel því við viljum ekki flýta okkur heldur gera þetta eins vel og við getum þannig að við komum þessu í gegn.“