Met slegið í Vínbúðunum á Þorláksmessu

27.12.2019 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Aldrei hafa fleiri viðskiptavinir komið í verslanir Vínbúðanna og á Þorláksmessu segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR. Þeir voru um 46 þúsund talsins en áður höfðu mest 44 þúsund verslað þar á einum degi.

Í svari ÁTVR við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að áfengissala það sem af er ári er ívið meiri en á sama tímabili í fyrra. Hún hefur aukist um 3,2 prósent og hafa rúmlega tuttugu og tvær milljónir lítra selst á þessu tímabili. Sala í vikunni fyrir jól, frá 18. til og með 24. desember, var 5,8 prósentum meiri en á sama tímabili í fyrra. Á Þorláksmessu seldust 261 þúsund af þeim 780 þúsund lítrum sem seldust þá vikuna.

Meira af jólabjór seldist nú en um síðustu jól eða 692 þúsund lítrar og nemur aukningin um 4,8 prósentum. Julebryg frá danska bjórframleiðandanum Tuborg var mest seldi jólabjórinn, með um 315 þúsund selda lítra. Þar á eftir eru Víking Jólabjór með tæplega 80 þúsund lítra, Thule Jólabjór með um 51 þúsund, Jólagull með um 48 þúsund og Jóla Kaldi 29 þúsund.

Mikil aukning er það sem af er ári á sölu freyðivíns og kampavíns. Alls seldust 221 þúsund lítrar og er það tæplega 31 prósent meira magn en í fyrra. Samdráttur hefur verið í sölu ávaxtavína sem nemur tæplega 14 prósentum.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi